Reynist frumgerðin góð gæti 232 milljóna dala samningur orðið 7,1 milljarða dala samningu um framleiðslu fleiri V-280. Að endingu gæti herinn varið um sjötíu milljörðum dala, eða um tíu billjónum króna, í endurbæturnar, samkvæmt frétt miðilsins Defense One.
Herinn hefur notast við UH-60 þyrlur frá Sikorsky frá áttunda áratug síðustu aldar en undanfarin ár hefur staðið yfir samkeppni milli fyrirtækja um það hvaða farartæki eigi að leysa þyrlurnar frægu af. Forsvarsmenn hersins vildu farartæki sem gæti flutt um tólf hermenn allt að fjögur hundruð sjómílur, eða um 740 kílómetra.

V-280 getur tekið á loft eins og þyrla en þegar á loft er komið er hægt að snúa hreyflum farartækisins svo þeir snúa fram á við og fljúga því eins og flugvél. Þetta gerir flugmönnum kleift að fljúga V-280 mun lengra en hefðbundnum þyrlum.
Hér að neðan má sjá myndband frá Bell þar sem farið er yfir getu og burði V-280.
Sikorsky og Boeing unnu saman að þróun annarrar frumgerðar fyrir herinn. Sú þyrla kallast Defiant X.
Flugher Bandaríkjanna opinberaði nýverið nýja gerð huldusprengjuvéla. B-21 verður fyrsta nýja sprengjuvél Bandaríkjanna í rúm þrjátíu en þær geta borið kjarnorkuvopn og eru hannaðar til að sjást ekki á ratsjám.
Sjá einnig: Opinbera fyrstu nýju sprengjuvélina í þrjátíu ár
Nýju sprengjuvélarnar eru liður í nútímavæðingu kjarnorkuvopnabúrs Bandaríkjanna en nútímavæðing á sér einnig stað í öðrum hlutum herafla Bandaríkjanna, eins og hernum.
Sjá einnig: Snúa sér að Kína og Rússlandi
Áætlunin er til komin vegna mikillar hernaðaruppbyggingar í Kína og aukinna umsvifa Kínverja í vestanverðu Kyrrahafi. Á undanförnum árum hafa Bandaríkjamenn byrjað að gera umfangsmiklar breytingar á herafla sínum með hliðsjón af því að leggja á mun minni áherslu á hina svokölluðu baráttu gegn hryðjuverkum. Þessum breytingum er ætlað að undirbúa herafla Bandaríkjanna fyrir átök ríkja á milli.