Fótbolti

Richarlison grét af gleði þegar hann hitti Ronaldo

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Richarlison og Ronaldo eftir sigur Brasilíu á Suður-Kóreu.
Richarlison og Ronaldo eftir sigur Brasilíu á Suður-Kóreu.

Tilfinningarnar báru Richarlison ofurliði þegar hann hitti sjálfan Ronaldo eftir sigur Brasilíu á Portúgal, 4-1, í sextán liða úrslitum á HM í Katar í gær.

Richarlison skoraði þriðja mark Brasilíumanna í leiknum eftir frábæra sókn. Þetta var þriðja mark hans á HM en aðeins Frakkinn Kylian Mbappé hefur skorað meira, eða fimm mörk.

Ronaldo var í stúkunni á 974 leikvanginum í Doha ásamt félögum sínum úr heimsmeistaraliði Brasilíu 2002; Rivaldo, Roberto Carlos og Cafu. Eftir leikinn fór Ronaldo niður í búningsklefa Brassa og hitti Richarlison.

Þetta var greinilega stór stund fyrir Richarlison sem táraðist enda að hitta einn besta fótboltamann allra tíma og manninn sem leiddi Brassa til þeirra síðasta heimsmeistaratitils.

Richarlison náði samt að kenna Ronaldo dúfudansinn sinn fræga sem hann dansar jafnan eftir að hafa skorað. Eftir að hann skoraði í leiknum í gær tók hann dúfudansinn með Tite, þjálfara brasilíska landsliðsins.

Mark Richarlisons í leiknum gegn Suður-Kóreu var hans tuttugasta fyrir brasilíska landsliðið sem mætir Króatíu í átta liða úrslitum HM á sunnudaginn.

Ronaldo er næstmarkahæstur í sögu HM með fimmtán mörk. Átta þeirra komu á HM 2002 í Suður-Kóreu og Japan þar sem Brasilía stóð uppi sem sigurvegari.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.