Erlent

Ellemann-Jen­sen opnar á stjórnar­sam­starf með Jafnaðar­mönnum

Atli Ísleifsson skrifar
Jakob Ellemann-Jensen, formaður hægriflokksins Venstre, og Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins og starfandi forsætisráðherra.
Jakob Ellemann-Jensen, formaður hægriflokksins Venstre, og Mette Frederiksen, formaður Jafnaðarmannaflokksins og starfandi forsætisráðherra. EPA

Jakob Ellemann-Jensen, formaður danska hægriflokksins Venstre, opnaði í gær á að mynduð verði ríkisstjórn með Jafnaðarmannaflokki Mette Frederiksen forsætisráðherra. „Kannski,“ sagði Ellemann-Jensen í samtali við TV2 í gær.

Jafnaðarmannaflokkurinn vann sigur í dönsku þingkosningunum í síðasta mánuði. Sex flokkar eiga nú í viðræðum við Jafnaðarmannaflokkinn um myndun stjórnar. Jafnaðarmannaflokkurinn og Venstre hafa ekki setið saman í ríkisstjórn í 44 ár, eða í forsætisráðherratíð Jafnaðarmannsins Anker Jørgensen árið 1978.

Jafnaðarmannaflokkur Mette Frederiksen forsætisráðherra fékk 27,5 prósent atkvæða sem svarar til fimmtíu þingsæta. Flokkurinn bætti við sig tveimur sætum og styrkti stöðu sína á þinginu. Rauða blokkin er nú með naumasta mögulega meirihluta, níutíu þingmenn, með stuðningi annars þingmanns Færeyinga og beggja þingmanna Grænlendinga.

Frederiksen hefur þó sagt að hún vilji mynda breiða ríkisstjórn, það er með flokkum sem standa utan blokka eða í hægri blokkinni.

Fyrir kosningar sagði Ellemann-Jensen að hann myndi undir engum kringumstæðum mynda ríkisstjórn með Jafnaðarmönnum. Nú segir hann að ef svo myndi fara, að Venstre og Jafnaðarmenn munu báðir eiga aðild að nýrri stjórn, þá væri það að sjálfsögðu „svikið loforð“. En þar sem ekki hafi tekist að mynda hreina hægristjórn þá sé staðan breytt.

Í frétt DR kemur fram að margir innan Venstre séu óánægðir með útspil formannsins í gær.

Sex flokkar eiga enn aðild að stjórnarmyndunarviðræðunum við Jafnaðarmenn; Venstre með sína 23 þingmenn, Moderaterne með sína sextán, Róttækir með sína sjö, Sósíalíski þjóðarflokkurinn með fimmtán, Frjálslynda bandalagið með fjórtán og Danski þjóðarflokkurinn með fimm.


Tengdar fréttir

Mette með pálmann í höndunum eftir sviptingar á ögur­stundu

Mette Frederiksen og Jafnaðarmannaflokkur hennar styrktu stöðu sína í þingkosningunum í Danmörku í kvöld. Afar mjótt var á munum og leit í fyrstu út fyrir að Moderaterne yrðu í lykilstöðu við myndun ríkisstjórnar. Nú er ljóst að Frederiksen getur myndað meirihlutastjórn með vinstri flokkum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×