Fótbolti

„Ég trúi ekki mínum eigin augum“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Roy Keane er harður í horn að taka.
Roy Keane er harður í horn að taka. Nick Potts/Getty

Roy Keane, fyrrum leikmaður Manchester United og írska landsliðsins, fannst ekki mikið koma til fagnaðarláta leikmanna brasilíska landsliðsins er liðið hafði betur gegn Suður-Kóreu í 16-liða úrslitum HM í gær.

„Ég hef aldrei séð svona mikinn dans, sagði Keane í settinu hjá ITV. „Ég trúi ekki mínum eigin augum, þetta er eins og að horfa á Strictly [breskur raunveruleikaþáttur, Strictly Come Dancing],“.

„Mér líkar ekki vel við þetta. Fólk mun segja að þetta sé hluti af þeirra menningu en mér þykir þetta vera vanvirðing við andstæðinginn,“ sagði Keane enn fremur.

Tite, þjálfari Brasilíu, var spurður út í dansfögn liðsmanna sinna eftir leik og þá sérstaklega hans eigin, en hann tók þátt í að dansa með Richarlison eftir mark hans í leik gærdagsins.

„Ég þarf að fara varlega þegar ég tek þátt í þessu vegna þess að það er sumt fólk sem mun kalla þetta vanvirðingu (...) í raun er þetta leið til að sýna gleði, til að fagna,“ sagði Tite við brasilíska fjölmiðla eftir leik.

Brasilía vann 4-1 sigur á Suður-Kóreu í gær og tryggði þannig sæti sitt í 8-liða úrslitum. Þar mætir liðið Króatíu sem vann Japan eftir vítaspyrnukeppni.

16-liða úrslit keppninnar klárast í dag með leik Marokkó við Spán klukkan 15:00 og viðureign Portúgals og Sviss klukkan 19:00.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.