Fótbolti

Mikill meiri­hluti portúgölsku þjóðarinnar vill setja Ron­aldo á bekkinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur ekki náð að skora í tveimur leikjum í röð.
Cristiano Ronaldo hefur ekki náð að skora í tveimur leikjum í röð. AP/Francisco Seco

Manchester United fékk nóg af Cristiano Ronaldo og nú lítur út fyrir að að portúgalska þjóðin þyki þetta líka vera komið gott hjá besta knattspyrnumanninum í sögu þjóðarinnar.

Ný könnun í stærsta íþróttablaði Portúgala sýnir að mikill meirihluti portúgölsku þjóðarinnar vill setja Ronaldo á bekkinn fyrir leikinn á móti Sviss í sextán liða úrslitum heimsmeistaramótsins í Katar.

Ronaldo hefur byrjað alla leiki Portúgala á mótinu en eina markið hans er úr vafasamri vítaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur. Ronaldo hefur ekki fundið markið í síðustu tveimur leikjum.

Blaðamenn A Bola settu á stað könnun fyrir blaðið og þar svöruðu sjötíu prósent því að Ronaldo ætti að byrja á bekknum á móti Sviss.

Hinn 37 ára gamli Ronaldo hefur skorað 118 mörk fyrir portúgalska landsliðið en næsti landsleikur hans verður númer 194. Hann hefur skorað 98 mörk í 142 keppnislandsleikjum.

Portúgalar unnu sinni riðil og hafa skorað sex mörk í þremur leikjum sínum á HM í Katar. Bruno Fernandes er bæði með tvö mörk og tvær stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×