Liva­ko­vić hetjan þegar Króatía fór á­fram eftir sigur í víta­spyrnu­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hetja kvöldsins.
Hetja kvöldsins. Adam Davy/Getty Images

Mörkvörðurinn Dominik Livaković reyndist hetja Króatíu þegar liðið tryggði sér farseðilinn í 8-liða úrslit heimsmeistaramótsins í fótbolta með sigri á Japan í vítaspyrnukeppni eftir að staðan var 1-1 að loknum venjulegum leiktíma og þegar framlengingunni lauk. Livaković varði þrjár spyrnur Japans og sá til þess að Króatía getur enn orðið heimsmeistari.

Silfurliðið frá 2018 á enn möguleika á að bæta árangur sinn frá því í Rússlandi sumarið 2018. Líkt og þá virðist liðið ætla að fara erfiðu leiðina en Króötum leiddist ekki að enda leiki sína á vítaspyrnukeppni það árið. 

Það sama var upp á teningnum en gamalt lið Króatíu átti í erfiðleikum með spræka Japani framan af leik í kvöld. Daizen Maeda kom Japan yfir undir lok fyrri hálfleiks með marki eftir fast leikatriði og var staðan 1-0 Japan í vil þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Japanir fagna marki sínu.Clive Brunskill/Getty Images

Ivan Perišić jafnaði metin með frábærum skalla þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en fleiri urðu mörkin ekki og því þurfti að framlengja. Það gerðist fátt markvert í framlengingunni og þurfti því að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um hvor þjóðin myndi mæta Suður-Kóreu eða Brasilíu í 8-liða úrslitum.

Þar kom reynsla Króata í ljós en þeir voru nær allir pollrólegir á vítapunktinum á meðan tilfinningarnar báru leikmenn Japans ofurliði. Spyrnur þeirra voru lausar og varði Dominik Livaković á endanum þrjár af fjórum spyrnum Japana. Á sama tíma skoruðu Króatar úr þremur af fjórum spyrnum sínum og tryggðu sér þar með sæti í 8-liða úrslitum HM.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.