Fótbolti

„Hann er ekki að deyja“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Pele er vissulega á sjúkrahúsi en er ekki í lífslokameðferð.
 Pele er vissulega á sjúkrahúsi en er ekki í lífslokameðferð. Getty/Stephane Cardinale

Brasilíska knattspyrnugoðið Pele liggur ekki á dánarbeðinu eins og einhverjir erlendir fjölmiðlar ýjuðu að fyrir helgi.

Fjölskylda Pele hefur nú sagt frá því sem er satt og rétt varðandi veikindi kappans.

Fréttir um að hann sé kominn í lífslokameðferð eiga sér ekki stað í raunveruleikanum eða að hann sé hættur að bregðast við krabbameinsmeðferðinnni.

Það lítur út fyrir að Pele hafi hreinlega nælt sér í kórónuveiruna.

„Hann er veikur og gamall. Hann er hins vegar á sjúkrahúsi vegna öndunarfærasýkingu. Þegar honum líður betur þá mun hann fara heim,“ sagði Kely Nascimento, dóttir Pele, við brasilísku sjónvarpsstöðina Globo.

Flavia Nascimento, hin dóttir Pele, segir að krabbameinsmferð Pele sé enn í fullum gangi.

„Það er ekki gott að fólk sé að segja að hann sé að deyja og að hann sé í lífslokameðferð. Treystið okkur, .það er ekki satt. Hann er ekki í gjörgæslu heldur bara í venjulegu herbergi á spítalanum. Hann er ekki að deyja en hann er að gangast undir meðferð,“ sagði Flavia Nascimento.

Pele er nýorðinn 82 ára gamall. Hann hefur lengi verið talinn einn allra besti knattspyrnumaður sögunnar og er sá eini sem hefur orðið heimsmeistari þrisvar sinnum.

Hann skoraði 1279 mörk í 1363 leikjum, að meðaltölum vináttuleikjum, sem er heimsmet skráð í heimsmetabók Guinness.

Pele skoraði þrjú mörk í úrslitaleikjum HM, fyrst tvö mörk aðeins sautján ára á HM 1958 og svo eitt mark í úrslitaleiknum 1970 þar sem hann lagði líka upp tvö mörk í leiknum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.