Fótbolti

Van Gaal kyssti Dumfries á blaðamannafundi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Louis van Gaal var innilegur á blaðamannafundinum eftir sigur Hollendinga á Bandaríkjamönnum.
Louis van Gaal var innilegur á blaðamannafundinum eftir sigur Hollendinga á Bandaríkjamönnum.

Louis van Gaal, þjálfari hollenska fótboltalandsliðsins, var ánægður með Denzel Dumfries eftir sigurinn á Bandaríkjunum, svo ánægður að hann smellti kossi á bakvörðinn á blaðamannafundi.

Dumfries skoraði eitt mark og lagði upp tvö þegar Holland sigraði Bandaríkin, 3-1, í fyrsta leik sextán liða úrslita HM í Katar í dag. 

Van Gaal var að vonum sáttur með frammistöðu Dumfries í leiknum á Khalifa International leikvanginum.

„Í gær smellti ég rembingskossi á hann og nú fær hann nýjan koss svo þið sjáið það öll,“ sagði Van Gaal og kyssti Dumfries við mikla kátínu viðstaddra.

Van Gaal hrósaði sínum mönnum fyrir spilamennskuna gegn Bandaríkjunum.

„Markmið okkar var að búa til pláss og það gekk eftir. Við fengum að sjá frábær mörk. Í því þriðja gaf vinstri kantbakvörðurinn fyrir á þann hægri sem skoraði. Ótrúlegt,“ sagði Van Gaal.

Holland mætir sigurvegaranum úr leik Argentínu og Ástralíu í átta liða úrslitunum á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×