Frakkland er komið í 8-liða úrslit heimsmeistaramótsins í Katar en liðið lagði Pólland 3-1 í 16-liða úrslitum í dag. Oliver Giroud skoraði fyrsta mark Frakka og er nú markahæsti landsliðsmaður Frakklands frá upphafi.
Heimsmeistarar Frakka enduðu riðlakeppnina á því að hvíla aðalliðið sitt og tapa en Pólverjarnir skriðu áfram í sextán liða úrslitin þrátt fyrir tap í sínum leik.
Frakkar voru sterkari í upphafi en eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn komust Pólverjar aðeins betur inn í leikinn. Oliver Giroud fékk dauðafæri um miðjan hálfleikinn og þá fengu Pólverjar tvö frábær færi í sömu sókninni stuttu síðar, fyrst varði Hugo Lloris og síðan bjargaði Raphael Varane á línu frá Matty Cash.
Oliver Giroud skorar hér fyrsta mark Frakka í þessum leik á 43. mínútu - þetta er 52 mark hans fyrir franska landsliðið. pic.twitter.com/51bIBCIzEN
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) December 4, 2022
Rétt fyrir hálfleik komust Frakkar hins vegar í 1-0. Þá skoraði Oliver Giroud með góðu skoti eftir sendingu frá Kylian Mbappe. Markið þýðir að Giroud er nú búinn að skora flest mörk allra fyrir franska landsliðið.
Staðan í hálfleik var 1-0 en í síðari hálfleik kláraði Mbappe síðan leikinn með tveimur mörkum.
Hann skoraði á 74.mínútu með bylmingsskoti eftir sendingu frá Ousmane Dembele og á 89.mínútu skoraði hann frábært mark og gulltryggði sigur Frakka og sætið í 8-liða úrslitum.
Mbappe er þar með búinn að skora níu mörk á tveimur heimsmeistaramótum en hann er aðeins 23 ára gamall.
Kylian Mbappe passes Pele for most World Cup goals scored by a men's player before turning 24 years old (8) pic.twitter.com/uJLZDH6LWO
— ESPN FC (@ESPNFC) December 4, 2022
Í uppbótartíma fengu Pólverjar vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Upamecano varnarmanns Frakka. Robert Lewandowski steig á punktinn en Hugo Lloris varði slaka spyrnu hans.
Lewandowski fékk hins vegar annað tækifæri því Lloris var löngu farinn af marklínunni auk þess sem varnarmenn Frakkaa voru komnir vel inn í teiginn. Framherjinn sterki skoraði af öryggi úr seinni spyrnunni og klóraði þar með í bakkann fyrir Pólverja.
Frakkar mæta sigurvegurum úr leik Englands og Senegal sem mætast í kvöld.