Innlent

Fylgi Sam­fylkingar rúm­lega tvö­faldast frá síðustu kosningum

Atli Ísleifsson skrifar
Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í Samfylkingunni í haust.
Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í Samfylkingunni í haust. Vísir/Vilhelm

Fylgi Samfylkingarinnar hefur rúmlega tvöfaldast frá þingkosningum á síðustu ári samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallúp. Fylgi flokksins mælist nú rúmlega 21 prósent samanborið við 9,9 prósent í þingkosningunum í september 2021 og fengi flokkurinn samkvæmt könnuninni fimmtán þingmenn kjörna.

RÚV sagði frá könnuninni í gærkvöldi, en samkvæmt henni mælist Sjálfstæðisflokkurinn sem fyrr stærstur – fengi 24,1 prósent nú samanborið við 24,4 prósent í kosningunum 2021.

Niðurstaða könnunar Gallups er í takti við könnun Maskínu í síðustu viku sem sýndi einnig stóraukið fylgi Samfylkingarinnar. 

Bæði Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn héldu landsfundi sína í haust þar sem Bjarni Benediktsson var endurkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, en Kristrún Frostadóttir tók við formennsku í Samfylkingunni af Loga Einarssyni.

Í könnun Gallup mælast bæði Framsóknarmenn og Píratar með rúmlega 12 prósenta fylgi, en Vinstri græn, flokkur Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, mælist með 7,5 prósenta fylgi, svipað og Viðreisn.

Miðflokkurinn mælist með 5,6 prósenta fylgi, Sósíalistaflokkurinn 5,2 prósent og Flokkur fólksins 4,5 prósent.

Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn sextán þingmenn kjörna, Samfylkingin fimmtán, Framsókn og Píratar átta, Vinstri græn og Viðreisn fimm og Miðflokkurinn og Sósíalistaflokkurinn þrjá.

Stuðningur við ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar minnkar um þrjú prósent milli kannana og er nú 46 prósent.


Tengdar fréttir

Stóraukið fylgi hjá Samfylkingunni

Fylgi Samfylkingarinnar stóreykst á milli mánaða samkvæmt nýrri könnun Maskínu og mælist nú nítján prósent samanborið við fjórtán prósent í síðasta mánuði.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.