Japan tryggði sér efsta sætið í E-riðli heimsmeistaramótsins með mögnuðum 2-1 sigri á Spánverjum í kvöld. Japan endar því með sex stig í efsta sæti en Spánn fer einnig áfram með jafn mörg stig og Þjóðverjar en betri markatölu.
Alvaro Morata kom Spáni yfir á 11.mínútu og þar sem Þjóðverjar komust í 1-0 á nánast sama tíma þá voru þessar tvær stórþjóðir báðar á leið áfram í 16-liða úrslit. Það átti þó margt eftir að gerast eftir þetta, staðan í hálfleik var 1-0.
Japanir mættu gríðarlega öflugir til leiks í síðari hálfleik. Á 48.mínútu skoraði Ritsu Doan fyrir Japan og jafnaði metin í 1-1 en hann hafði komið inn sem varamaður í hálfleik.
Þremur mínútum síðar gerðist svo umdeilt atvik. Boltinn barst þá fyrir mark Þjóðverja þar sem Japanir náðu honum á fjærstönginni og komu aftur fyrir markið. Ao Tonaka kom þar boltanum í netið en VAR skoðaði atvikið og hvort boltinn hefði verið kominn afturfyrir endamörk áður en Japan skoraði.
Japan take the lead against Spain!
— BBC Sport (@BBCSport) December 1, 2022
VAR deemed that the ball *didn't* go out of play.
As things stand, Japan will go through and Germany are going home!
Follow on @BBCSounds and via the @BBCSport app #BBCWorldCup #BBCFootball pic.twitter.com/Gy21MzIfEN
Við fyrstu endursýningu virtist svo vera en að lokum fékk markið að standa og Japan fagnaði. Afar umdeilt og risastór ákvörðun.
Það sem eftir var leiks var nánast spilað á eitt mark en Spánn skapaði sér þó fá opin færi. Þjóðverjar biðu með öndina í hálsinum því jafntefli hefði þýtt að þeir hefðu farið áfram.
Lokatölur urðu 2-1 fyrir Japan sem þar með hirti efsta sætið af Spánverjum.
Þeir spænsku tóku áhættu fyrir leikinn, gerðu fimm breytingar á byrjunarliðinu og það borgaði sig ekki. 7-0 sigur Spánverja á Kosta Ríka í fyrstu umferð riðlakeppninnar reyndist þeim afar dýrmætur því það gaf þeim yfirburðamarkatölu í riðlinum og reið baggamuninn að lokum.
Spánn mun mæta Marokkó í 16-liða úrslitum en Japanir mæta Króötum.