Fótbolti

Danir vilja framlengja við Hjulmand þrátt fyrir klúðrið í Katar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Strákarnir hans Kaspers Hjulmand fengu aðeins eitt stig af níu mögulegum í D-riðli heimsmeistaramótsins í Katar.
Strákarnir hans Kaspers Hjulmand fengu aðeins eitt stig af níu mögulegum í D-riðli heimsmeistaramótsins í Katar. getty/Stuart Franklin

Þrátt fyrir að Danir hafi fallið úr leik á neyðarlegan hátt á HM í Katar ætlar danska knattspyrnusambandið að framlengja samning landsliðsþjálfarans Kaspers Hjulmand.

Danmörk tapaði fyrir Ástralíu, 1-0, og endaði í neðsta sæti D-riðils með eitt stig og eitt mark. Þrátt fyrir það hafa forráðamenn danska knattspyrnusambandsins mikla trú á Hjulmand og vilja halda honum í starfi.

„Við viljum enn framlengja samninginn við hann. Við förum ekki á taugum. Á níu dögum höfum við tapað tveimur leikjum og gert eitt jafntefli. Við erum ánægðir með Kasper og viljum halda honum hjá okkur um ókomin ár,“ sagði Peter Møller, formaður danska knattspyrnusambandsins, eftir leikinn í gær. Hann viðurkenndi samt að árangurinn á HM væri óviðunandi.

Hjulmand tók við danska landsliðinu af Åge Hareide fyrir tveimur árum. Undir hans stjórn komst danska landsliðið í undanúrslit á EM í fyrra.

Hjulmand hefur stýrt Dönum í 37 leikjum; 23 þeirra hafa unnist, ellefu tapast og þrír endað með jafntefli.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.