Túnis vann Frakkland, 1-0, í D-riðli í gær. Frakkar héldu að þeir hefðu bjargað stigi þegar Griezmann skoraði á áttundu mínútu í uppbótartíma en markið var dæmt af eftir langa töf, franska liðinu til lítillar gleði.
Frakkar voru svo ósáttir að franska knattspyrnusambandið hefur kvartað til FIFA undan dómnum sem þeir telja rangan. Senda þarf kvörtun til FIFA innan við sólarhring eftir leik.
„Við ætlum að senda inn kvörtun því að okkar mati var mark Antoines Griezmann ranglega dæmt af,“ sagði í tilkynningu frá knattspyrnusambandi Frakklands.
Þrátt fyrir tapið unnu Frakkar D-riðil. Þeir mæta Pólverjum í sextán liða úrslitum á sunnudaginn.