Fótbolti

Courtois hótar meintum svikara í belgíska liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thibaut Courtois segist ekkert til í fréttum þess efnis að Belgar hafi hnakkrifist eftir tapið fyrir Marokkóum.
Thibaut Courtois segist ekkert til í fréttum þess efnis að Belgar hafi hnakkrifist eftir tapið fyrir Marokkóum. getty/Liu Lu

Dramað í kringum belgíska fótboltalandsliðið heldur áfram og markvörðurinn Thibaut Courtois hefur hótað meintum svikara í herbúðum þess.

Belgía tapaði óvænt fyrir Marokkó, 0-2, í annarri umferð riðlakeppninnar á HM í Katar á sunnudaginn. Eftir leikinn bárust fréttir af því að þremur lykilmönnum belgíska liðsins, þeim Kevin De Bruyne, Eden Hazard og Jan Vertonghen, hafi lent saman í búningsklefanum og Romelu Lukaku hafi þurft að stía þeim í sundur.

Á blaðamannafundi sagði Courtois ekkert til í þessum fréttum og sagði að sá sem lak þeim í fjölmiðla yrði ekki langlífur í landsliðinu.

„Við sögðum ýmislegt við hvor annan og stundum er það. Ég held við höfum ekki misst okkur en það er eðlilegt að ræða saman sem einstaklingar eða í hóp til að reyna að leysa málin,“ sagði Courtois.

„Vandamálið er að það sem er sagt í fjölmiðlum er ekki alltaf sannleikanum samkvæmt. Við þurfum ekki að vita hver lak þessu en ef það kemst upp eru dagar hans í landsliðinu taldir. Það eru engin vandamál í liðinu, einungis tilraunir utanaðkomandi aðila til að búa til vesen innan liðsins.“

Belgía er í 3. sæti F-riðils og þarf að vinna Króatíu í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn til að komast áfram í sextán liða úrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×