Fótbolti

Fernandes hélt að Ronaldo hefði skorað markið sem var skráð á hann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Bruno Fernandes fallast í faðma eftir sigur Portúgals á Úrúgvæ.
Cristiano Ronaldo og Bruno Fernandes fallast í faðma eftir sigur Portúgals á Úrúgvæ. getty/Youssef Loulidi

Bruno Fernandes hélt að Cristiano Ronaldo hefði skorað fyrra mark Portúgals gegn Úrúgvæ en ekki hann sjálfur.

Portúgal sigraði Úrúgvæ, 2-0, í öðrum leik sínum í H-riðli á HM í Katar í gær. Fyrra markið kom á 54. mínútu. Fernandes átti þá fyrirgjöf sem Ronaldo var nálægt því að snerta áður en boltinn fór í netið. Ronaldo fagnaði markinu eins og hann hefði skorað en það var svo skráð á Fernandes. Hann hélt að sinn gamli samherji hjá Manchester United hefði snert boltann.

„Ég held að það skipti engu hver skoraði markið. Mér fannst upphaflega eins og Cristiano hefði snert boltann. Ég reyndi að gefa á hann,“ sagði Fernandes. „En það mikilvægasta er að við unnum mjög sterkan andstæðing.“

Fernandes skoraði svo annað mark sitt úr vítaspyrnu í uppbótartíma. Hann hefur því skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar í fyrstu tveimur leikjum Portúgals á HM.

Evrópumeistararnir frá 2016 eru búnir að vinna H-riðil og geta því farið nokkuð afslappaðir í lokaleik sinn í riðlinum gegn Suður-Kóreu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.