Innlent

Enn ekki búið að ráða í stöðu forstöðumanns Listasafns Íslands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir segist ætla að vanda sérstaklega vel til verka við ráðningu forstöðumanns Listasafns Íslands.
Lilja Alfreðsdóttir segist ætla að vanda sérstaklega vel til verka við ráðningu forstöðumanns Listasafns Íslands. Vísir/Egill

„Mínir félagsmenn eiga ekki til orð. Ég heyri mikla gagnrýni vegna þessa langa ráðningarferlis,“ segir Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna, um urg vegna þess hve lengi hefur tekið að ráða í stöðu forstöðumanns Listasafns Íslands.

Það er Fréttablaðið sem greinir frá.

Tveir mánuðir eru liðnir frá því að umsóknarfresturinn rann út. Sjö sóttu um stöðuna og þar af voru fjórir metnir hæfir. Þeirra á meðal var Gunnar B. Kvaran, sem hefur langa reynslu af stjórnun listasafna, en hann hefur síðan dregið umsókn sína til baka.

„Hann var maðurinn til að rífa upp safnið á nýjan leik,“ hefur Fréttablaðið eftir ónafngreindum heimildarmanni en sjálfur segir Gunnar, sem nú stjórnar nútímalistasafni í Osló, að sér hafi ekki langað nógu mikið heim.

Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, segir standa til að vanda ráðninguna sérstaklega. Hún var harðlega gagnrýnd þegar hún ákvað að flytja Hörpu Þórsdóttur, fráfarandi forstöðumanns Listasafns Íslands, í stöðu þjóðminjavarðar án auglýsingar.

„Engar tafir hafa orðið á ráðningarferlinu sem allt er samkvæmt ströngustu fyrirmælum stjórnsýslulaga og annarrar löggjafar,“ hefur Fréttablaðið eftir Lilju.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×