Fótbolti

Króatar óska eftir virðingu eftir að þjálfari Kanada sagðist ætla að ríða þeim

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
John Herdman, þjálfari kanadíska landsliðsins í knattspyrnu, hefði getað valið orð sín betur eftir tap liðsins gegn Belgum.
John Herdman, þjálfari kanadíska landsliðsins í knattspyrnu, hefði getað valið orð sín betur eftir tap liðsins gegn Belgum. Matthew Ashton - AMA/Getty Images

Zlatko Dalic, þjálfari króatíska landsliðsins í knattspyrnu, hefur beðið kollega sinn hjá kanadíska landsliðinu, John Herdman, um að sýna liðinu sem hafnaði í öðru sæti á seinasta heimsmeistaramóti virðingu eftir að sá síðarnefndi sagði að hann og leikmenn hans myndu ríða Króötum í leik liðanna sem fram fer í dag.

Eftir tap 1-0 tap Kanada gegn Belgíu í F-riðli heimsmeistaramótsins síðastliðin miðvikudag valdi Herdman orð sín heldur óheppilega til að reyna að stappa stálinu í sína menn.

„Ég sagði leikmönnunum að við ættum heima á þessu móti og að við ætlum okkur að mæta og r... Króötum,“ sagði Herdman eftir tapið. Hann hefur nú beðist afsökunar á orðavali sínu.

Þessi ummæli Herdman fóru ekki sérlega vel í Zlatko Dalic, þjálfara Króata, og óskaði hann eftir því að sínu liði yrði sýnd virðing.

„Hvernig hann setur þessi orð saman sýnir ekki virðingu,“ sagði Dalic, en hans menn fóru alla leið í úrslitaleik HM í Rússlandi árið 2018.

„Við höfnuðum í öðru sæti á seinasta móti og við eigum skilið virðingu. Ég ætla samt ekki að einbeita mér að eða dvelja of lengi við ummæli annarra.“

„Við berum jafn mikla virðingu fyrir öllum öðrum og við búumst við því sama.“

Króatía og Kanada mætast í þriðja leik dagsins á HM klukkan 16:00 í dag og með sigri, og hagstæðum úrslitum úr leik Belga og Marokkó, eru Króatar komnir áfram í 16-liða úrslit. Kanadamenn þurfa hins vegar nauðsynlega að ná í að minnsta kosti stig til að halda vonum sínum á lífi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.