Argentínumenn héldu vonum sínum á lífi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi skoraði fyrra mark Argentínumanna í kvöld.
Lionel Messi skoraði fyrra mark Argentínumanna í kvöld. Markus Gilliar - GES Sportfoto/Getty Images

Eftir óvænt tap gegn Sádí-Arabíu í fyrsta leik þurfu Lionel Messi og félagar hans í argentínska landsliðinu sárlega á sigri að halda gegn Mexíkó í seinasta leik dagsins á HM í Katar. Messi og Enzo Fernandez sáu um markaskorun Argentínumanna og niðurstaðan 2-0 sigur.

Fyrir leik var ljóst að tap myndi binda enda á hinsta dans Messi á heimsmeistaramótum þar sem það myndi þýða að Argentína væri úr leik.

Staðan var enn markalaus þegar flautað var til hálfleiks og Argentínumenn þurftu að finna lausnir í síðari hálfleik.

Það var svo áðurnefndur Lionel Messi sem kom Argentínumönnum í forystu með marki á 64. mínútu leiksins þegar hann fékk boltann rétt fyrir utan D-bogan, tók eina snertingu og lét vaða í nærhornið.

Argentínumenn gerðu svo út um leikinn þegar Enzo Fernandes fékk boltann á vítateigshorninu eftir sendingu frá Messi, tók einföld skæri og skot hans fann fjærhornið.

Niðurstaðan því 2-0 sigur Argentínumanna og því er enn allt galopið í C-riðli. Argentínumenn sitja í öðru sæti riðilsins með þrjú stig eftir tvo leiki, jafn mörg og Sádí-Arabía og einu stigi minna en topplið Póllands. Mexíkó situr hins vegar í neðsta sæti með eitt stig.

Argentína mætir Pólverjum í lokaumferð riðilsins næstkomandi miðvikudag og á sama tíma mætast Mexíkó og Sádí Arabía. Argentínumenn þurfa helst sigur til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum og efsta sæti riðilsins, en jafntefli gæti dugað þeim til að komast áfram ef Mexíkó vinnur sinn leik með tveimur mörkum eða minna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira