Argentínumenn héldu vonum sínum á lífi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi skoraði fyrra mark Argentínumanna í kvöld.
Lionel Messi skoraði fyrra mark Argentínumanna í kvöld. Markus Gilliar - GES Sportfoto/Getty Images

Eftir óvænt tap gegn Sádí-Arabíu í fyrsta leik þurfu Lionel Messi og félagar hans í argentínska landsliðinu sárlega á sigri að halda gegn Mexíkó í seinasta leik dagsins á HM í Katar. Messi og Enzo Fernandez sáu um markaskorun Argentínumanna og niðurstaðan 2-0 sigur.

Fyrir leik var ljóst að tap myndi binda enda á hinsta dans Messi á heimsmeistaramótum þar sem það myndi þýða að Argentína væri úr leik.

Staðan var enn markalaus þegar flautað var til hálfleiks og Argentínumenn þurftu að finna lausnir í síðari hálfleik.

Það var svo áðurnefndur Lionel Messi sem kom Argentínumönnum í forystu með marki á 64. mínútu leiksins þegar hann fékk boltann rétt fyrir utan D-bogan, tók eina snertingu og lét vaða í nærhornið.

Argentínumenn gerðu svo út um leikinn þegar Enzo Fernandes fékk boltann á vítateigshorninu eftir sendingu frá Messi, tók einföld skæri og skot hans fann fjærhornið.

Niðurstaðan því 2-0 sigur Argentínumanna og því er enn allt galopið í C-riðli. Argentínumenn sitja í öðru sæti riðilsins með þrjú stig eftir tvo leiki, jafn mörg og Sádí-Arabía og einu stigi minna en topplið Póllands. Mexíkó situr hins vegar í neðsta sæti með eitt stig.

Argentína mætir Pólverjum í lokaumferð riðilsins næstkomandi miðvikudag og á sama tíma mætast Mexíkó og Sádí Arabía. Argentínumenn þurfa helst sigur til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum og efsta sæti riðilsins, en jafntefli gæti dugað þeim til að komast áfram ef Mexíkó vinnur sinn leik með tveimur mörkum eða minna.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.