Erlent

Fjörutíu og níu dæmdir til dauða fyrir múgæðisaftöku

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fleiri en 90 létust í eldunum og fjöldi heimila brann.
Fleiri en 90 létust í eldunum og fjöldi heimila brann. epa/STR

Fjörutíu og níu einstaklingar hafa verið dæmdir til dauða í Alsír fyrir að hafa tekið þátt í múgæðisaftöku árið 2021. Fórnarlambið var listamaður sem hugðist aðstoða við að slökkva gróðureld en var myrtur þegar múgurinn ákvað að hann hefði kveikt eldinn.

Morðið átti sér stað í Kabyle-héraðinu í norðausturhluta Alsír. Það vakti mikla athygli og reiði þegar myndskeiðum af því komust í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Þegar morðið átti sér stað höfðu tugir látist í gróðureldum, þeirra á meðal hermenn sem voru kallaðir út til að berjast við eldana. 

Yfir 100 manns voru sóttir til saka vegna dauða Djamel Ben Ismail og margir fundnir sekir. Þeir sem voru dæmdir til dauða munu að öllum líkindum verja ævinni í fangelsi, þar sem stjórnvöld ákváðu fyrir mörgum áratugum að hætta aftökum.

Þegar eldarnir geisuðu í ágúst 2021 tísti Ben Ismail að hann hygðist ferðast 320 kílómetra frá heimili sínu til að taka þátt í að slökkva eldana. Þegar hann kom til þorpsins Larbaa Nath Irathen sökuðu íbúar hann hins vegar um að hafa kveikt eldana, að því er virðist vegna þess að hann var aðkomumaður.

Listamaðurinn leitaði skjóls á lögreglustöð en var dreginn út af íbúum. Meðal þeirra sem voru fundnir sekir um morðið á Ben Ismail voru maður og konur sem stungu hann, áður en kveikt var í honum. 

Þess ber að geta að meðal þeirra sem voru dæmdir fyrir morðið voru einstaklingar sem voru einnig fundnir sekir um að tilheyra hreyfingu aðskilnaðarsinna í Kabyle. Meðal þeirra var leiðtogi hreyfingarinnar, sem dvelur nú í Frakklandi. 

Yfirvöld í Alsír hafa sakað hreyfinguna um að hafa kveikt eldana.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×