Holland og Ekvador skiptu stigunum á milli sín er liðin gerðu 1-1 jafntefli í annarri umferð riðlakeppni HM í dag. Liðin eru nú jöfn á toppi A-riðils með fjögur stig hvort og nákvæmlega sömu markatölu.
Eftir að bæði lið höfðu unni sigra í fyrstu umferð riðlakeppninnar var ljóst að sigurliðið í dag færi langleiðina með að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum.
Útlitið var gott fyrir Hollendinga þargar Cody Gakpo kom liðinu yfir strax á sjöttu mínútu eftir stoðsendingu frá Davy Klaassen, en það var eina löglega markið sem skorað var í fyrri hálfleik. Pervis Estupinan hélt nefnilega að hann hhefði jafnað metin fyrir Ekvador í uppbótartíma fyrri hálfleiks, en markið dæmt af vegna rangstöðu.
Estupinan átti þó sinn þátt í jöfnunarmarki Ekvador þegar hann skaut að marki snemma í síðari hálfleik. Andries Noppert varði þó vel frá honum í marki Hollendinga, en Enner Valencia var vel vakandi inni í teig, hirti frákastið og jafnaði metin.
Ekvador var hættulegra liðið það sem eftir lifði leiks, en ekki urðu mörkin fleiri og niðurstaðan því 1-1 jafntefli.
Eins og áður segir eru liðin nú jöfn á toppi A-riðils með fjögur stig og nákvæmlega sömu markatölu. Báðum liðum nægir því jafntefli í lokaumferð riðlakeppninnar til að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum, en Ekvador mætir Senegal í lokaumferðinni og Hollendingar gestgjöfunum frá Katar.