Senegal gerði út um drauma heimamanna

Sindri Sverrisson skrifar
Boulaye Dia og Nampalys Mendy fagna eftir að Dia kom Senegal í 1-0 gegn Katar í dag.
Boulaye Dia og Nampalys Mendy fagna eftir að Dia kom Senegal í 1-0 gegn Katar í dag. Getty/Sarah Stier

Gestgjafar Katar eru svo gott sem úr leik á HM karla í fótbolta eftir að hafa tapað 3-1 gegn Senegal í A-riðli mótsins í dag.

Katar getur haldið í veika von um sæti í 16-liða úrslitum en þarf til dæmis að treysta á að Ekvador vinni Holland í seinni leik dagsins í riðlinum til að eiga einhverja möguleika.

Senegal er hins vegar með örlögin í eigin höndum fyrir leikinn við Ekvador í lokaumferð riðlakeppninnar á þriðjudaginn.

Senegalar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og uppskáru mark frá Boulaye Dia eftir fjörutíu mínútna leik, þegar hann nýtti sér skelfileg mistök Boualem Khoukhi sem hreinlega rann á rassinn þegar hann ætlaði að sparka boltanum úr teignum. 

Famara Diédhiou bætti svo við öðru marki með fallegum skalla snemma í seinni hálfleik. Katar átti sinn langbesta kafla á mótinu eftir þetta og eftir tvær frábærar markvörslur Edouard Mendy náði Mohammed Muntari að minnka muninn fyrir Katar þegar enn var korter til leiksloka. Bamba Dieng innsiglaði hins vegar sigur Senegal eftir skyndisókn.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.