Innlent

Fangaverðir fá högg- og hnífavesti og mögulega rafbyssur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist munu svara köllum fangavarða um aukna þjálfun og búnað.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist munu svara köllum fangavarða um aukna þjálfun og búnað. Vísir/Vilhelm

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hyggst svara kalli fangavarða um aukna þjálfun og varnarbúnað. Grafalvarleg þróun eigi sér stað innan veggja fangelsanna, með auknum vopnaburði og ofbeldi.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Blaðið birti frétt í gær þar sem fjallað var um vopn og vopnanotkun í fangelsunum. Þá hefur blaðið eftir dómsmálaráðherra í dag að öryggi fangavarða og lögreglu séu algjört forgangsmál.

„Það sem á sér stað innan veggja fangelsa endurspeglar þá þróun sem við verðum nú vitni að í samfélaginu. Ég hef verið í miklu samtali við fangelsisyfirvöld og það er ljóst að bregðast þarf við á mörgum sviðum,“ segir Jón.

Hann segir aukinn viðbúnað fangavarða meðal annars munu fela í sér högg- og hnífavesti og þá sé til skoðunar að veita þeim aðgengi að rafbyssum. 

Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins í gær hafa fangaverðir ekki farið varhluta af ofbeldi við störf sín.

„Við verðum nú ítrekað vitni að alvarlegum atvikum í fangelsum landsins. Það er alveg ljóst að nauðsynlegt er að útbúa okkar fólk þannig að öryggi þess sé sæmilega tryggt í vinnunni. Og það gerum við ekki öðruvísi en með auknum varnarbúnaði. Samhliða þarf svo að vinna að skipulagsmálum, enda ekki hægt að sætta sig við að málum sé leyft að þróast áfram með þessum hætti innan fangelsanna,“ segir dómsmálaráðherra.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.