Fótbolti

Danska stórstjarnan missti mömmu sína

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nadia Nadim í leik með danska fótboltalandsliðinu sem hún hefur spilað meira en hundrað leiki fyrir.
Nadia Nadim í leik með danska fótboltalandsliðinu sem hún hefur spilað meira en hundrað leiki fyrir. Getty/Andrea Staccioli

Danska knattspyrnukonan Nadia Nadim fékk mjög slæmar fréttir til Katar þar sem hún er stödd í Katar sem sendiherra heimsmeistaramótsins.

Hamida, móðir Nadiu, lést í umferðarslysi á þriðjudagsmorguninn. Hún vat aðeins 57 ára gömul.

„Móðir mín lést eftir að hafa orðið fyrir trukk. Hún var á leiðinni heim úr líkamsræktinni,“ skrifaði Nadim.

„Ég finn ekki orðin til að lýsa því hvernig mér líður. Ég hef misst mikilvægustu manneskjuna í mínu lífi og það gerðist svo skyndilega og svo óvænt,“ skrifaði Nadim á samfélagsmiðla sína.

„Hún var stríðsmaður og barðist fyrir hverjum sentímetra í sínu lífi. Hún gaf mér ekki líf bara einu sinni heldur tvisvar,“ skrifaði Nadim.

„Lífið er ósanngjarnt en ég skil ekki af hverju þetta varð að vera hún og af hverju þetta endaði svona,“ skrifaði Nadim.

Hin 34 ára gamla Nadim á fjórar systur en þær misstu föður sinn í Afganistan árið 1999 þegar hann var drepinn af Talíbönum. Fjölskyldan flúði til Danmerkur og hóf nýtt líf þar. Nadim byrjaði að æfa fótbolta og hefur síðan orðið ein besta knattspyrnukona í sögu dönsku þjóðarinnar.

Nadim hefur skorað 38 mörk í 103 landsleikjum og hefur spilað fyrir stórlið eins og Portland Thorns, Manchester City og Paris Saint-Germain. Hún er nú leikmaður Racing Louisville í bandarísku NWSL deildinni.

Nadim vakti líka mikla athygli fyrir það að hafa klárað læknisnámið með fótboltaferlinum. Hún útskrifaðist sem læknir í janúar á þessu ári.

Hún fékk aftur á móti mikla gagnrýni fyrir að þiggja peningana og gerast sendiherra fyrir HM í Katar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×