Fótbolti

Leikmaður Bandaríkjanna fór út að borða í Katar með forseta Líberíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Timothy Weah fagnar marki sínu á móti Wales í fyrsta leik Bandaríkjanna á HM í Katar.
Timothy Weah fagnar marki sínu á móti Wales í fyrsta leik Bandaríkjanna á HM í Katar. Getty/Marvin Ibo Guengoer

Hún var skemmtileg myndin sem kom inn á samfélagsmiðla eftir leik Bandaríkjanna og Wales á heimsmeistaramótinu í Katar. Leiknum endaði með 1-1 jafntefli eftir að Gareth Bale jafnaði úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok.

Timothy Weah hafði áður komið bandaríska landsliðinu yfir með sínu fyrsta marki í úrslitakeppni HM. Þetta var hans fjórða mark fyrir bandaríska landsliðið.

Eftir leikinn fór Timothy út af að borða með forseta Líberíu. Sá heitir George Weah og það vill svo til að hann er faðir Timothy.

George Weah var sjálfur frábær leikmaður og er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Monakó, Paris Saint-Germain og AC Milan.

George vann Gullboltann árið 1995 og varð þá eini landsliðsmaður Afríkuríkis til að afreka slíkt.

George Weah lék alls 75 landsleiki fyrir Líberíu frá 1986 til 2002 og skoraði í þeim 18 mörk. Hann fékk hins vegar aldrei að spila á HM því landslið Líberíu hefur aldrei komist í úrslitakeppni HM.

Timothy Weah fæddist árið 2000 í Brooklyn í New York fylki en móðir hans er frá Jamaíku. Hann fór ungur til Paris Saint-Germain en hefur spilað með Lille frá árinu 2019.

Timothy hafði möguleika á því að spila fyri fjögur landslið en valdi það bandaríska fram yfir Frakkland, Jamaíkúy og Líberíu.

George Weah hefur verið forseti Líberíu frá því í janúar 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×