Fótbolti

Belgíski ­ráð­herrann mætti með fyrir­liða­bandið og lét forseta FIFA heyra það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gianni Infantino fær að heyra það frá belgíska utanríkisráðherranum Hadja Lahbib í heiðursstúkunni í gær.
Gianni Infantino fær að heyra það frá belgíska utanríkisráðherranum Hadja Lahbib í heiðursstúkunni í gær. Getty/Vincent Kalut

Gianni Infantino, forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins virtist fá orð í eyra í heiðursstúkunni á leik Beglíu og Kanada á heimsmeistaramótinu í Katar í gær.

Hadja Lahbib, utanríkisráðherra Belga, mætti á leikinn í fullum skrúða það er í landsliðsbúningnum og með fyrirliðabandið umdeilda.

FIFA bannaði notkun One Love fyrirliðabandsins og eru margir skiljanlega bæði hneykslaðir og reiðir yfir því enda táknar það fjölbreytni og jafnan rétt allra.

Belgíska blaðið Het Laatste Niews var með augun á heiðursstúkunni í leiknum og náði myndum af því þegar Lahbib gekk á Gianni Infantino og það leit ekki út fyrir að þau væri sammála.

Auðvitað náðist ekki hvað þau voru að ræða um en það er ekki erfitt að ímynda sér að Lahbib hafi hreinlega lesið Infantino pistilinn vegna þess hvernig FIFA hefur kúgað knattspyrnusamböndin í þessu máli.

Infantino yppti öxlum á myndunum á meðan Lahbib virtist lesa yfir honum.

Hadja Lahbib átti ekki að mæta til Katar nema ef að Belgar kæmust í undanúrslitaleikinn en hún ætlaði sér greinilega að nýta sér tækifærið til að leggja baráttunni fyrir mannréttindum lið.

Það sagði hún líka belgískum fjölmiðlum sem voru því með myndavélarnar á heiðursstúkunni i gærkvöldi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.