Innlent

Gerðu samning um fræðslu og stuðning til hin­segin barna

Atli Ísleifsson skrifar
Fulltrúar Samtakanna ´78 og ungmenni frá Hinsegin félagsmiðstöðinni ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra.
Fulltrúar Samtakanna ´78 og ungmenni frá Hinsegin félagsmiðstöðinni ásamt Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra. Stjr

Forsætisráðuneytið og mennta- og barnamálaráðuneytið hafa undirritað samstarfssamninga við Samtökin '78. Markmið samninganna sem eru samtals að fjárhæð níu milljónir króna er að veita fræðslu og stuðning til hinsegin barna og ungmenna og vinna gegn fordómum og haturstjáningu.

Sagt er frá samkomulaginu á vef stjórnarráðsins. 

Fram kemur að samstarfið nái til starfa hinsegin félagsmiðstöðvar Samtakanna '78 og Tjarnarinnar, fræðslu og þróunarstarfs í grunn- og framhaldsskólum á landsbyggðinni og útgáfu fræðsluefnis um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi og leiðbeiningar til þeirra sem bera ábyrgð á slíku starfi.

„Heildarstuðningur stjórnvalda við Samtökin ´78 hefur sjöfaldast frá árinu 2017 og nemur á yfirstandandi ári tæpum 50 milljónum króna.

Þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir árin 2022–2025, sú fyrsta sem snýr eingöngu að málefnum hinsegin fólks, samanstendur af 21 verkefni sem skilgreinir stefnu stjórnvalda í málaflokknum og lýsir tilteknum verkefnum sem miða að því að bæta stöðu og réttindi hinsegin fólks í samfélaginu. Ábyrgð á verkefnunum er á hendi tíu ráðuneyta.

Til að tryggja eftirfylgni hefur nú verið birt mælaborð þar sem staða aðgerða er sýnd á myndrænan hátt. Gert er ráð fyrir að mælaborðið verði uppfært tvisvar á ári og verður næsta uppfærsla í apríl 2023. Mörg verkefnanna eru þegar komin af stað en önnur enn í undirbúningi en aðgerðaáætlunin gildir til ársins 2025,“ segir í tilkynningunni.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.