Fótbolti

Þjóðverjar vilja kæra kúgun FIFA til Íþróttadómstólsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Neuer, markvörður og fyrirliði þýska landsliðsins, með fyrirliðabandið.
Manuel Neuer, markvörður og fyrirliði þýska landsliðsins, með fyrirliðabandið. Getty/Christian Charisius

Fyrirliðabandið fræga fékk ekki að fara á upphandlegg fyrirliðanna á HM í Katar eftir að knattspyrnusamböndin létu undan hótunum frá Alþjóða knattspyrnusambandsins.

Þýska knattspyrnusambandið virðist vera ósáttara með þróun mála heldur en hin samböndin sem urðu að gefa eftir þegar var farið að hóta fyrirliðum þeirra með gulum spjöldum, sektum og alls kyns refsingum.

Þýska blaðið Bild segir að forráðamenn þýska knattspyrnusambandsins vilji leita réttar síns í þessum furðulega máli sem snýst auðvitað bara fyrst og fremst um kúgun Katarbúa á samkynhneigðum í landinu.

Talsmaður þýska sambandsins staðfestir að Þjóðverjar séu að kanna lögfræðilega stöðu sína í þessu máli.

„FIFA hefur stoppað okkur í að sýna táknrænan stuðning við fjölbreytni og mannréttindi. Þeir hafa gert það með því að hóta okkur með refsingum án þess að tilgreina hvers kyns þessar refsingar eru,“ sagði Steffen Simon hjá þýska knattspyrnusambandinu.

Þýska knattspyrnusambandið sækist eftir hraðmeðferð á málinu þannig að hægt væri að fá niðurstöðu innan 48 klukkutíma.

Þýska sambandið hefur þegar misst einn styrktaraðila vegna málsins en matvöruverslanakeðjan Rewe vill ekkert með þá hafa eftir að þeir hættu við að nota „One Love“ fyrirliðabandið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×