Fótbolti

Sjáðu Sádastuðið í klefanum eftir sigurinn frækna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Sádí-Arabíu fögnuðu vel og innilega í leikslok gegn Argentínu.
Leikmenn Sádí-Arabíu fögnuðu vel og innilega í leikslok gegn Argentínu. getty/Lionel Hahn

Gleðin var svo sannarlega alls ráðandi í búningsklefa sádí-arabíska karlalandsliðsins í fótbolta eftir sigurinn frækna á Argentínu, 1-2, á HM í Katar í dag.

Lionel Messi kom Argentínumönnum yfir með marki úr vítaspyrnu eftir tíu mínútur og tvö mörk voru svo dæmd af argentínska liðinu í fyrri hálfleik. En í byrjun þess seinni sneru Sádarnir svo dæminu sér í vil. 

Saleh Al-Shehri jafnaði á 48. mínútu og fimm mínútum síðar kom Salem Al-Dawsari þeim yfir. Það reyndist vera sigurmark leiksins og Sádí-Arabíu tyllti sér þar með á topp C-riðils. Í seinni leik dagsins í honum eigast Pólland og Mexíkó við.

Þetta var fjórði sigur Sáda á HM frá upphafi og sá langstærsti enda höfðu Argentínumenn ekki tapað í 36 leikjum í röð fyrir hann og Suður-Ameríkumeistararnir hefðu sett heimsmet ef þeir hefðu sloppið við tap í dag.

Eins og við mátti búast stigu Sádar trylltan sigurdans í búningsklefa sínum eftir leikinn á Lusail leikvanginum. Þeir sungu og trölluðu eins og sjá má í myndbandinu hér fyrir neðan.

Sigur Sádí-Arabíu á Argentínu er sá óvæntasti í sögu HM ef marka má útreikninga tölfræðiveitunnar Gracenote. Samkvæmt þeim áttu Sádar aðeins 8,7 prósent möguleika á að vinna leikinn.

Næsti leikur Sádí-Arabíu er gegn Póllandi á laugardaginn. Í lokaumferð riðlakeppninnar á miðvikudaginn eftir viku mæta Sádar svo Mexíkóum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×