Ástæðan er sú að Torres er á föstu með dóttur Enrique. Þau tilkynntu um sambandið í janúar, um það leyti sem að Torres var seldur frá Manchester City til Barcelona.
Þjálfarinn var einnig spurður að því hvaða leikmaður spænska liðsins líktist honum mest og hélt áfram að grínast: „Það er auðvelt, það er herra Ferran Torres. Annars myndi dóttir mín koma og hún myndi höggva af mér hausinn,“ sagði Enrique en bætti svo við að því fylgdi engin pressa að einn leikmaður í landsliðshópnum væri tengdasonur hans.
Hinn 22 ára Torres, sem skorað hefur 12 mörk í 44 leikjum eftir komuna til Barcelona, tók í sama streng og segir fagmennsku einkenna sambandið við Enrique.
„Ég held að bæði ég og þjálfarinn vitum hvernig á að skilja á milli fjölskyldunnar og þess að vera þjálfari og leikmaður. Við verðum bara að halda áfram með eðlilegum hætti, gerum það og við náum vel saman,“ sagði Torres.
Torres hefur spilað níu landsleiki fyrir Spán á þessu ári og skorað eitt mark, og líklegt er að hann komi að minnsta kosti eitthvað við sögu gegn Kosta Ríka þegar Spánverjar hefja keppni á HM á miðvikudaginn.