Fótbolti

Katarar hætta við á síðustu stundu og banna bjórinn

Sindri Sverrisson skrifar
Enskir stuðningsmenn verða að láta sér nægja að hella óáfengum bjór yfir sig.
Enskir stuðningsmenn verða að láta sér nægja að hella óáfengum bjór yfir sig. Getty/Marc Atkins

Yfirvöld í Katar hafa tekið algjöra U-beygju varðandi bjórsölu nú þegar aðeins tveir dagar eru í að hið umdeilda heimsmeistaramót karla í fótbolta hefjist þar með leik heimamanna við Ekvador.

New York Times greinir frá því að yfirvöld hafi tekið ákvörðun um að aðeins óáfengir drykkir verði til sölu á leikvöngunum sem spilað verður á á HM.

Það er í algjörri mótsögn við það sem FIFA hefur gefið út og flækir málin varðandi 75 milljóna dala samning FIFA við Budweiser.

Í opinberum upplýsingabæklingi FIFA fyrir stuðningsmenn í Katar, sem gefinn var út fyrir mótið, segir að hægt verði að kaupa Budweiser, óáfengan Budweiser og Coca-Cola vörur á leikvöngunum í allt að þrjá klukkutíma fyrir hvern leik og einn klukkutíma eftir hvern leik.

Reglur um áfengi eru mjög strangar í Katar og aðeins hægt að kaupa áfenga drykki á ákveðnum hótelbörum. Verðið á þeim þykir einnig dýrt og átti bjórinn á stuðningsmannasvæðum og leikvöngum að kosta tæplega 2.000 krónur.

Samkvæmt frétt NYT verður reyndar eitthvað um áfengan bjór á leikvöngunum því FIFA-fólk og aðrir sem hafa efni á því að sitja í sérstökum VIP-stúkum munu fá sinn bjór.

Skipuleggjendur HM neituðu að tjá sig um málið og fulltrúar Budweiser hafa heldur ekki tjáð sig að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×