Fótbolti

Spá Grace­not­e: Brasilía verður heims­meistari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar Jr. og Richarlison þurfa að spila vel ætli Brassarnir að fara alla leið.
Neymar Jr. og Richarlison þurfa að spila vel ætli Brassarnir að fara alla leið. Getty/Kenta Harada

Tölfræðifyrirtækið Gracenote hefur farið yfir allar tölur og reiknað út sigurlíkurnar í öllum leikjum á heimsmeistaramótinu í Katar.

HM í Katar hefst á sunnudaginn kemur og lýkur ekki fyrr en með úrslitaleik sex dögum fyrir jól.

Með þessum útreiknum hefur fólkið hjá Nielsen Gracenote komist að því að mestar líkur séu á því að Brasilía verði heimsmeistari í ár eða tuttugu prósent.

Brasilíumenn hefur aðeins tapað þrisvar í síðustu fimmtíu leikjum og er efst á heimslista Alþjóða knattspyrnusambandsins. Þeir hafa ekki orðið heimsmeistarar í tuttugu ár síðan síðan þeir unnu mótið í Japan og Suður-Kóreu árið 2002.

Þetta gæti orðið keppni Suður-Ameríkuþjóðanna því næstmestar líkur eru á því að Argentína verði heimsmeistari eða sextán prósent. Bestu möguleika Evrópuþjóða eiga Spánverjar (7 prósent), Hollendingar (7 prósent) og Belgar (6 prósent) en heimsmeistatar Frakka deila sjötta sætinu með Portúgal.

Evrópuþjóðir hafa unnið síðustu fjóra heimsmeistaratitla. Ítalir unnu 2006, Spánverjar unnu 2010, Þjóðverjar unnu 2014 og Frakkar eru ríkjandi heimsmeistarar. Það er því kannski komið að Suður-Ameríku að eignast loksins besta landslið heims.

Samkvæmt spánni þá slá Brasilíumenn Úrúgvæ og Spán út á leið sinni í undanúrslitaleikinn þar sem þeir mæta nágrönnum sínum í Argentínu sem höfðu á undan slegið út Danmörk og Holland.

Í hinum undanúrslitaleiknum mætast síðan Frakkland og Belgía þar sem Belgar hafa betur. Brasilíumenn vinna síðan Belgíu í úrslitaleiknum.

Enska landsliðið dettur út á móti Frakklandi í átta liða úrslitum á sama stigi og Portúgalar detta út fyrir Belgum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×