Umfjöllun: Litáen - Ís­land 0-0 (5-6) | Íslenskur sigur í vítakeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hákon Arnar Haraldsson var besti leikmaður Íslands í leiknum í Kaunas.
Hákon Arnar Haraldsson var besti leikmaður Íslands í leiknum í Kaunas. vísir/hulda margrét

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er komið í úrslit Eystrasaltsbikarsins eftir sigur á Litáen. Eftir markalausan leik réðust úrslitin í vítakeppni. Þar skoruðu Íslendingar úr sex spyrnum en Litáar úr fimm.

Ísland mætir Lettlandi í úrslitaleik Eystrasaltsbikarsins á laugardaginn. Lettar unnu Eistlendinga í vítakeppni í hinum undanúrslitaleiknum.

Fyrri hálfleikurinn í Kaunas í dag var ágætur af beggja hálfu en sá seinni afar slakur. Allt frá því í upphafi seinni hálfleiks benti allt til þess að leikurinn myndi enda í vítakeppni og sú varð raunin. Ísland kláraði leikinn manni færri eftir að Hörður Björgvin Magnússon var rekinn af velli.

Liðin nýttu allar fimm spyrnur sínar til að byrja með og því þurfti að grípa til bráðabana. Natanas Zebrauskas skaut framhjá úr fyrstu spyrnu Litáens þar en Aroni Elísi Þrándarsyni urðu ekki á nein mistök og hann tryggði Íslandi sæti í úrslitaleiknum. 

Auk Arons skoruðu Andri Lucas Guðjohnsen, Stefán Teitur Þórðarson, Arnór Sigurðsson, Mikael Neville Anderson og Sverrir Ingi Ingason úr sínum spyrnum fyrir íslenska liðið. Sá síðastnefndi lék sinn fyrsta landsleik síðan í lok mars 2021 og Jóhann Berg Guðmundsson sinn fyrsta síðan í byrjun september í fyrra.

Hákon Arnar Haraldsson lék aftur á móti sinn sjötta landsleik og var í fyrsta sinn í hlutverki fremsta manns. Það var samt bara að nafninu til því Skagamaðurinn var úti um allt á vellinum, mikið í boltanum og var besti leikmaður vallarins í fyrri hálfleik. Samherjar hans hefðu þó getað gert betur í að fylla í eyðurnar fremst á vellinum Hákon skildi eftir sig þegar hann dró sig til baka.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af ágætis krafti en það litáíska komst svo betur inn í hann.

Öll bestu, og raunar öll færin í fyrri hálfleik komu á sex mínútna kafla. Jóhann Berg átti fyrst skot framhjá og síðan Ísak Bergmann Jóhannesson áður en Rúnar Alex Rúnarsson varði frá Fedor Cernych úr dauðafæri eftir að íslenska vörnin opnaðist illa.

Á 33. mínútu fékk Ísland svo tvö dauðafæri í sömu sókninni. Fyrst náði Jón Dagur Þorsteinsson ekki valdi á boltanum eftir frábæra stungusendingu Jóhanns Berg og svo skallaði Hákon yfir eftir góða fyrirgjöf frá Davíð Kristjáni Ólafssyni.

Í upphafi seinni hálfleiks fékk Saulius Mikoliunas heiðursskiptingu í sínum 101. og síðasta landsleik. Það var það markverðasta sem gerðist í seinni hálfleiknum sem var afleitur í alla staði og gæðin af afar skornum skammti.

Íslenska liðið var áfram meira með boltann en ógnaði ekkert. Raunar fékk Litáen tvö bestu færi. Á 52. mínútu varði Rúnar Alex frá Armandas Kucys og svo frá Paulius Golubicas þegar tvær mínútur voru til leiksloka.

Íslendingar voru tíu inni á vellinum undir lokin því á 84. mínútu fékk Hörður Björgvin sitt annað gula spjald og þar með rautt fyrir að kasta boltanum í bakið á Linas Klimavicius.

Íslenska liðið var aldrei nálægt því að skora í seinni hálfleik en fékk tækifæri til að vinna leikinn á vítapunktinum. Þar voru okkar menn nokkuð öruggir þótt það hafi hjálpað til hversu linur í lúkunum Edvinas Gertmonas, markvörður Litáens, var.

Sigurinn varð íslenskur en vonandi verður frammistaðan gegn Lettlandi á laugardaginn betri en í dag. Fyrri hálfleikurinn var allt í lagi en sá seinni agalega lélegur. En þetta slapp rétt svo til gegn liði sem er í 144. sæti heimslistans.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira