Fótbolti

Strákurinn úr flótta­manna­búðunum kominn á HM í fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ungu strákarnir Alphonso Davies og Jamal Musiala hjá Bayern eru báðir á leiðinni á HM, Davies með Kanada en Musiala með Þýskalandi.
Ungu strákarnir Alphonso Davies og Jamal Musiala hjá Bayern eru báðir á leiðinni á HM, Davies með Kanada en Musiala með Þýskalandi. Getty/Stefan Matzke

Alphonso Davies er í HM-hópi Kanadamanna þrátt fyrir að hann sé að glíma við meiðsli og það skipti hann gríðarlega miklu máli eins og kom vel fram á samfélagsmiðlum hans.

Davies hefur stimplað sig inn hjá Bayern München og var algjör lykilmaður í því að Kanadamenn komust aftur á heimsmeistaramótið í fyrsta sinn síðan 1986.

Þessi 22 ára gamli bakvörður hjá Bayern spilar vanalega mun framar á velli með kanadíska landsliðinu. Hann var með fimm mörk og átta stoðsendingar í þrettán leikjum í undankeppni HM í Katar.

Davies tognaði aftan í lærvöðva í leik á móti Herthu Berlín 5. nóvember síðastliðinn og spilaði ekki tvo síðustu leiki Bæjara fyrir HM-frí.

Þrátt fyrir meiðslin valdi landsliðsþjálfarinn John Herdman hann í 26 manna HM-hópinn. Davies fagnaði þessum fréttum á samfélagsmiðlum með því að vekja athygli á hvar hann þurfti að byrja.

„Strákur fæddur í flóttamannabúðum átti aldrei að ná svo langt. En hér er hann á leiðinni á heimsmeistaramótið. Láttu aldrei einhvern segja við þig að draumar séu óraunhæfir. Haltu áfram að dreyma og ná árangri,“ skrifaði Alphonso Davies á Twitter síðu sína.

Davies fær að vera með í hópnum en hann hjálpar ekki til í fyrstu leikjunum.

„Læknaliðið skoðaði hann og það voru ekki góðar fréttir ef ég segi alveg eins og er. Það mun taka hann allt að fjórtán dögum að koma til baka,“ sagði John Herdman við ESPN.

Kanada er í riðli með Belgíu, Króatíu og Marokkó. Fyrsti leikurinn í riðlinum er á móti Belgíu eftir níu daga en liðið mætir svo Króatíu eftir þrettán daga. Davies ætti að geta náð lokaleiknum á móti Marokkó sem er 1. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×