Fótbolti

Gladbach í Evrópu­bar­áttu eftir sigur á Dort­mund

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gladbach vann öruggan sigur í kvöld.
Gladbach vann öruggan sigur í kvöld. Christof Koepsel/Getty Images

Borussia Mönchengladbach vann 4-2 sigur á Borussia Dortmund í eina leik kvöldsins í þýsku úrvalsdeildinni. Sigur kvöldsins þýðir að Gladbach er komið í Evrópubaráttuna en toppbaráttan í Þýskalandi er æsispennandi.

Heimamenn í Gladbach fengu sannkallaða draumabyrjun þegar Jonas Hoffmann tók frábærlega við sendingu Lars Stindl og skilaði boltanum í netið. Gestirnir frá Dortmund létu það ekki á sig fá og Julian Brandt jafnaði metin skömmu síðar eftir sendingu Jude Bellingham.

Gladbach skoraði hins vegar tvö mörk með skömmu millibili og segja má að þau hafi lagt grunninn að sigri kvöldsins. Ramy Bensebaini kom heimamönnum yfir á 26. mínútu, Hoffaman með stoðsendinguna að þessu sinni. Marcus Thuram skoraði svo þriðja markið fjórum mínútum síðar. Aftur var Stindl með stoðsendinguna.

Varnarmaðurinn Nico Schlotterbeck gaf Dortmund líflínu með marki þegar fimm mínútur voru til loka fyrri hálfleiks. Staðan 3-2 þegar gengið var til búningsherbergja.

Hofmann lagði hins vegar upp annað mark sitt strax á fyrstu mínútu síðari hálfleiks, Kouadio Kone með markið. Hofmann kom svo boltanum í netið skömmu síðar en markið dæmt af vegna brots í aðdraganda þess.

Lokatölur því 4-2 Gladbach í vil sem er komið upp í 7. sæti með 22 stig, þremur stigum minna en Dortmund sem er sæti ofar. Það munar svo aðeins tveimur stigum á Dortmund og Union Berlín sem er í 2. sæti deildarinnar þó Berlínarbúar eigi leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×