Innlent

Áminning læknis skal standa

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. icture by GABRIELE CHAROTTE (Photo by Fairfax Media via Getty Im

Heilbrigðisráðuneytið hefur úrskurðað að ákvörðun embættis landlæknis um að áminna lækni vegna tveggja mála sem tengjast vanrækslu í starfi skuli standa.

Málið má rekja til þess að í febrúar á þessu ári áminnti embætti landlæknis lækninn vegna vanrækslu í starfi. Var það annars vegar vegna þess að hann var talinn hafa sýnt af sér ótilhlýðilega framkomu í garð skjólstæðings hans. Taldi skjólstæðingurinn að læknirinn hefði talað niður til hennar og sýnt henni og sjúkdómi hennar óvirðingu.

Hitt málið tengdist skjólstæðingi mannsins sem svipti sig lífi nokkrum mínútum eftir að læknirinn hafði útskrifað hann. Taldi embættið að læknirinn hefði vanrækt að greina skjólstæðinginn á fullnægjandi og faglegan hátt, hefja rétta meðferð og tryggja eftirfylgd við útskrift. Taldi embættið að með þessu hafi læknirinn vanrækt starfsskyldur sínar.

Læknirinn vildi hins vegar ekki una áminningunni og kærði niðurstöðu embættis landlæknis til heilbrigðisráðuneytisins. Taldi hann að embættið hefði ekki leyfi til að hnýta saman tvö óskyld mál. Þá taldi hann samskipti sín við sjúklinginn í fyrra málinu í engu hafa verið ámælisverð.

Að sama skapi taldi hann að í seinna málinu hafi verið litið framhjá kerfisbundnum þáttum, svo sem skorti á teymisvinnu og plássleysi. Hann einn hafi persónulega verið gerður ábyrgur fyrir andláti skjólstæðingsins. Litið hafi verið framhjá öðrum þáttum sem urðu til þess að viðkomandi var útskrifaður.

Alvarleikastigið mikið

Heilbrigðisráðuneytið úrskurðaði að áminningin skuli standa. Var það gert á þeim grundvelli að niðurstaðan í fyrra málinu hafi verið byggð á öllum gögnum málsins. Þá telur ráðuneytið að alvarleikastigið í seinna málinu sé mikið, enda hafi verið um að ræða alvarlegan veikan sjúkling sem hafi áður gert tilraun til sjálfvígs.

Taldi ráðuneytið að lagaskilyrði fyrir áminningu hafi verið uppfyllt. Því skuli hún standa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×