Fótbolti

Sjáðu fyrsta mark Orra fyrir FCK

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Orri Steinn Óskarsson er kominn á blað með aðalliði FC Kaupmannahafnar.
Orri Steinn Óskarsson er kominn á blað með aðalliði FC Kaupmannahafnar. getty/Lars Ronbog

Orri Steinn Óskarsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir aðallið FC Kaupmannahafnar þegar það vann Thisted, 1-3, í sextán úrslitum dönsku bikarkeppninnar í gær.

Dönsku meistararnir þurftu að hafa mikið fyrir því að vinna Thisted sem leikur í C-deildinni og þurfti framlengingu til að komast áfram í átta liða úrslitin.

Orri var í byrjunarliði FCK í gær og þakkaði traustið. Hann kom liðinu yfir á 22. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf Christians Sörensen, fyrrverandi leikmanns Þróttar. Þetta var fyrsta mark Orra fyrir aðallið FCK en hann hefur skorað grimmt fyrir yngri lið félagsins.

Orri var tekinn af velli á 61. mínútu og í hans stað kom Andreas Cornelius. Og hann reyndist hetja FCK því hann skoraði tvö mörk í framlengingunni og tryggði liðinu sigurinn. Mörkin og allt það helsta úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði FCK líkt og Orri en var tekinn af velli í hálfleik. Hákon Arnar Haraldsson var ekki í leikmannahópi liðsins.

Orri, sem er átján ára, hefur leikið átta leiki fyrir aðallið FCK og skorað eitt mark. Hann kom til FCK frá Gróttu fyrir tveimur árum. Hann byrjaði að spila með Gróttu í 2. deild þegar hann var aðeins þrettán ára og lék alls fimmtán leiki í deild og bikar fyrir liðið áður en hann fór utan.

Orri hefur leikið 28 leiki fyrir yngri landslið Íslands og skorað fimmtán mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×