Fótbolti

Hent út úr Evrópumeistaraliðinu vegna slæmrar hegðunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannah Hampton fagnar Evrópumeistaratitli Englands á Wembley í sumar.
Hannah Hampton fagnar Evrópumeistaratitli Englands á Wembley í sumar. Getty/Jonathan Moscrop

Hannah Hampton er engin fyrirmyndar knattspyrnukona ef marka má nýjustu fréttir úr herbúðum Evrópumeistara Englands.

Hin 21 árs gamla Hampton var varamarkvörður enska landsliðsins á EM síðasta sumar þar sem enska landsliðið fór alla leið og vann sitt fyrsta gull á stórmóti. Það var líka fyrsta gull ensks landsliðsins frá 1966.

Guardian segir frá þvi að landsliðsþjálfarinn Sarina Wiegman hafi nú hent Hönnuh út úr landsliðinu vegna slæmrar hegðunar og lélegs hugarfars.

Hampton er markvörður Aston Villa en virðist líka vera í vandræðum hjá félaginu sínu. Hún hefur ekki spilað fyrir Aston Villa síðan 25. september síðastliðinn.

Hampton var ekki í hópnum á móti Chelsea um helgina og var í stúkunni þótt að knattspyrnustjórinn Carla Ward, hafi skipað henni að halda sig heima.

Guardian hefur einnig grafið upp margar heimildir fyrir því að Hampton hafi verið með hegðunarvandamál í yngri landsliðum Englands og áður með félagsliðum sínum.

Enska knattspyrnusambandið, Aston Villa og fólk tengt Hampton vildi ekki tjá sig um málið þegar blaðamaður Guardian leitaði eftir því.

Hampton kom til Aston Villa frá nágrönnunum í Birmingham í júlí 2021. Hún byrjaði tvo fyrstu leikina á þessu tímabili en var síðan sögð vera að glíma við meiðsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×