Fótbolti

Real á toppinn þrátt fyrir að mis­stíga sig

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Það var hart barist í Madríd.
Það var hart barist í Madríd. Denis Doyle/Getty Images

Spánarmeistarar Real Madríd náðu toppsæti La Liga, spænsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta, á nýjan leik með 1-1 jafntefli á heimavelli gegn Girona. Þó lærisveinar Carlo Ancelotti hafi komist á topp deildarinnar verður að segjast að liðið hafi stigið á bananahýði í dag.

Leikur dagsins var markalaus framan af og virtust heimamenn eiga fá svör við varnarleik gestanna. Það var loks þegar tuttugu mínútur lifðu leiks sem Federico Valverde gaf fyrir markið þar sem Vinícius Júnior þurfti aðeins að renna boltanum yfir línuna og heimamenn komnir 1-0 yfir.

Aðeins tíu mínútum síðar fór boltinn í hend Marco Asensio innan vítateigs og eftir að dómari leiksins skoðaði atvikið í skjánum á hliðarlínunni var vítaspyrna dæmd. Cristhian Stuani fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Þegar venjulegum leiktíma var að ljúka kom Rodrygo boltanum í netið og heimamenn ærðust af fögnuði. Dómari leiksins dæmdi markið hins vegar af og skömmu síðar nældi Toni Kroos sér í sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Þar sem níu mínútum var bætt við þá voru heimamenn manni færri síðustu mínútur leiksins en það kom ekki að sök þar sem gestirnir ógnuðu lítið og leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Real fer með stiginu upp á topp deildarinnar með 32 stig en Barcelona er í öðru sæti með 31 stig. Bæði lið hafa leikið 12 leiki.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.