Fótbolti

Segir að United sé loksins að nálgast sitt besta á ný

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola er hrifinn af því sem hann hefur séð undanfarnar vikur hjá Manchester United.
Pep Guardiola er hrifinn af því sem hann hefur séð undanfarnar vikur hjá Manchester United. Lynne Cameron - Manchester City/Manchester City FC via Getty Images

Pep Guardiola, þjálfari Englandsmeistara Manchester City, segir að nágrannar sínir í Manchester United séu loksins að nálgast sitt besta á ný og að liðið geti bráðlega farið að berjast á toppnum í ensku úrvalsdeildinni.

United hefur ekki unnið ensku úrvalsdeildina síðan þjálfarinn Sir Alex Ferguson hætti með liðið árið 2013 og þá hefur liðið ekki unnið titil síðan árið 2017.

Nú er United hins vegar taplaust í sjö leikjum í röð, eða síðan liðið mátti þola 6-3 tap gegn Guardiola og lærisveinum hans í Manchester City í byrjun októbermánaðar.

„Ég hef á tilfinningunni að United sé að koma aftur,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi í gær.

„Loksins er United að koma aftur. Ég sá það á fimmtudaginn og í fyrri hálfleik á móti Chelsea,“ bætti Spánverjinn við, en United vann 3-0 sigur gegn Sheriff Tiraspol í Evrópudeildinni síðastliðinn fimmtudag og gerði 1-1 jafntefli gegn Chelsea um seinustu helgi.

„Ég hef sagt það að ég er hrifinn af því sem ég hef séð hjá United undanfarið. Það verða fullt af liðum eins og United að berjast. Þess vegna þarftu að berjast fyrir því að komast í Meistaradeildina og berjast fyrir titlinum.“

Þá talaði Guardiola einnig um að lið eins og Newcastle væru mætt í baráttuna um Meistaradeildarsæti.

„Newcastle er nú þegar komið þangað. Ég sá þá á móti Tottenham þar sem miðverðirnir þeirra mættu Kane og Son án nokkurra vandræða.“

„Við vitum hversu góður stjóri Eddie Howe er. Þeir eru með nýja leikmenn, þeir eru hugrakkir og þeir eiga góða möguleika á að vera í þessari baráttu,“ sagði stjórinn að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×