Innlent

Segir þunga dóma endur­spegla breytingu í undir­heimum

Árni Sæberg og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur ræddi niðurstöðu Landsréttar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur ræddi niðurstöðu Landsréttar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Stöð 2

Afbrotafræðingur segir Rauðagerðismálið ólíkt öllu því sem sést hefur áður hér á landi. Í því ljósi sé skiljanlegt að dómur Landsréttar yfir sakborningum hafi verið þyngri en sést hefur áður. Dómur yfir Angjelin Sterkaj, sem skaut Armando Beqirai til bana, var þyngdur í tuttugu ár og sýknu þriggja samverkamanna hans var snúið við og þeir dæmdir til fjórtán ára fangelsisvistar.

Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur ræddi niðurstöðu Landsréttar í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Þarna er mikið skipulag og eins og segir í dómi Landsréttar ofsafengið og einbeittur ásetningur. Dómar í Landsrétti hafa metið það sem svo að þarna hafi verið samverkafólk, þau hafa verið nokkur þarna saman að skipuleggja þetta brot. Það er eitthvað sem við höfum ekki séð áður, í því ljósi er skiljanlegt að við séum að sjá þyngri dóm en við höfum verið að sjá áður,“ segir hún.

Þá segir hún að vel megi vera að eðlisbreyting sé að verða í íslenskum glæpaheimi. Áður hafi þó gerst að tveir menn hafi skipulagt morð saman og dómar í þeim málum fyrir þrjátíu árum hafi einnig verið þungir.

„Þannig að þetta er ekki einsdæmi en svona þar sem lítur út fyrir að manndráp sé mjög skipulagt og tengist jafnvel skipulagðri brotastarfsemi, það bendir til þess að það sé einhver breyting,“ segir Margrét.

Hún segir þunga í dóma Landsréttar í dag endurspegla þá breytingu.

Eðlilegt að viðsnúningur komi verjendum á óvart

Margrét segir ekki óeðlilegt að það hafi komið verjendum þremenninganna, sem sakfelldir voru fyrir samverknað í dag, að sýknudómi héraðsdóms hafi verið snúið við í Landsrétti. „En sýknan hjá héraðsdómi kom mörgum líka á óvart,“ segir hún.

Verjendur þeirra Murats Selivrada og Claudiu Sofiu Coelho Carvalho sögðu báðir að þeim hefði komið á óvart að umbjóðendur þeirra hafi verið sakfelldir, þegar fréttastofa ræddi við þá fyrir utan dómsal í dag.

Geir Gestsson, verjandi Murats, sagði að saklaus maður hefði verið sakfelldur og að dagurinn í dag væri ekki góður dagur fyrir íslenskt réttarkerfi. Hann sagði augljóst að málinu yrði áfrýjað til Hæstaréttar og að hann væri líklegur til að taka málið fyrir.

Steinbergur Finnbogason, verjandi Claudiu, sagði refsingu þremenninganna langt umfram það sem hefði mátt búast við og að einsýnt væri að málið kæmi til kasta Hæstaréttar.


Tengdar fréttir

„Það er verið að sakfella saklausan mann“

Lögmaður Murats Selivrada, eins þeirra sem voru í dag sakfelld fyrir að hafa í félagi hvert við annað myrt Armando Beqirai, segir niðurstöðu Landsréttar vera mikil vonbrigði.

Sýndu tveggja tíma þögult mynd­band í Rauða­gerðis­málinu

Aðalmeðferð í Rauðagerðismálinu svokallaða hófst í Landsrétti í dag. Málsmeðferðin hófst á sýningu tveggja klukkustunda langs myndbands, þar sem fylgst er með aðilum máls á ferð þeirra kvöldið sem Armando Beqirai var ráðinn bani.

„Rauða­gerðis­málið ber ein­kenni mafíumorða“

Íslenskt samfélag var skekið í upphafi árs þegar karlmaður á fertugsaldri var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði í Reykjavík. Afbrotafræðingur segir morð af þessu tagi aldrei hafa sést hér á landi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×