Rodrigo Bentancur reyndist hetja Tottenham er liðið vann ótrúlegan endurkomusigur gegn nýliðum Bournemouth í dag. Lokatölur 2-3, en heimamenn höfðu náð tveggja marka forskoti snemma í síðari hálfleik.
Gestirnir í Tottenham höfðu nokkra yfirburði í leiknum en það voru heimamenn í Bournemouth sem tóku forystuna með marki frá Kieffer Moore eftir vel útfærða skyndisókn á 22. mínútu leiksins.
Þetta reyndist eina mark fyrri hálfleiksins og staðan var því 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Síðari hálfleikur bauð svo upp á meira af því sama. Tottenham var meira með boltann, en það var Bournemouth sem náði að skora eftir vel útfærða skyndisókn á 50. mínútu og útlitið svart fyrir Tottenham.
Gestirnir gáfust þó ekki upp og Ryan Sessegnon minnkaði muninn á 57. mínútu leiksins eftir stoðsendingu frá Pierre Emile-Hojbjerg og liðið fann að möguleikinn var til staðar.
Walesverjinn Ben Davies jafnaði svo metin fyrir Tottenham á 73. mínútu þegar hann skallaði hornspyrnu Ivan Perisic í netið og gestirnir flýttu sér að koma boltanum á miðjuna til að reyna að finna sigurmarkið.
Það var svo á annarri mínútu uppbótartíma að sigurmarkið fannt þegar Rodrigo Bantancur kom boltanum í netið eftir tuttugustu hornspyrnu gestanna í leiknum og sigurinn var þeirra.
Niðurstaðan varð því 2-3 sigur Tottenham sem situr í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig eftir 13 leiki, þremur stigum á eftir toppliði Manchester City. Bournemouth situr hins vegar í 14. sæti með 13 stig.