Fótbolti

Sú yngsta til að vera kosin sú besta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sophia Smith með ungum aðdáenda eftir leik með bandaríska landsliðinu í vetur.
Sophia Smith með ungum aðdáenda eftir leik með bandaríska landsliðinu í vetur. Getty/Erin Chang

Knattspyrnukonan Sophia Smith hjá Portland Thorns var í gær valin mikilvægasti leikmaður bandarísku kvennadeildarinnar á þessu tímabili.

Smith fékk þessi verðlaun aðeins nokkrum dögum fyrir að hún og félagar hennar mæta Kansas City Current í úrslitaleik um bandaríska meistaratitilinn.

Smith skrifar söguna með því að fá þennan eftirsótta titil því hún er aðeins 22 ára gömul og sú yngsta í sögunni til að vera kosin sú besta í NWSL deildinni.

Smith skoraði 14 mörk í 18 leikjum og bætti við þremur stoðsendingum. Hún endaði sem næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar á eftir Alex Morgan sem skoraði sextán mörk fyrir San Diego Wave. Morgan varð önnur í kjörinu en þriðja var hin brasilíska Debinha hjá North Carolina Courage.

Smith skoraði þrjú af mörkum sínum úr vítum en alls átti hún fjóra leiki með tveimur mörkum.

Smith, sem fæddist í ágúst 2000, var valin fyrst í nýliðavalinu 2020 eftir að hafa spilað með Stanford Cardinal í háskólaboltanum. Hún hefur þegar skorað 11 mörk í 25 landsleikjum fyrir Bandaríkin.

„Ef ég segi alveg eins og er þá á engin orð. Þetta er svo sérstakt fyrir mig og ég væri ekki í þessari stöðu nema fyrir alla trúna og allan stuðninginn sem ég hef í kringum mig,“ skrifaði Sophia Smith á samfélagsmiðla sína.

Naomi Girma hjá San Diego Wave var bæði valin nýliði ársins og besti varnarmaður ársins. Hin kanadíska Kailen Sheridan var valin besti markvörður deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×