Fótbolti

Júlíus kemur inn fyrir Guð­laug Victor

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Júlíus Magnússon gæti spilað A-landsleik númer tvö og þrjú í næsta mánuði.
Júlíus Magnússon gæti spilað A-landsleik númer tvö og þrjú í næsta mánuði. Vísir/Hulda Margrét

Ein breyting hefur verið gerð á leikmannahóp íslenska karlalandsliðsins í fótbolta fyrir vináttuleiki liðsins gegn Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu. Júlíus Magnússon, fyrirliði bikarmeistara Víkings, kemur inn fyrir Guðlaug Victor Pálsson, leikmann DC United í Bandaríkjunum.

Íslenska karlalandsliðið mætir Sádi-Arabíu og Suður-Kóreru í vináttuleikjum ytra þann 6. og 11. nóvember næstkomandi. Hópurinn var tilkynntur þann 21. október en athygli vakti að Júlíus var hvorki í hópnum sem var valinn né hluti af þeim fimm leikmönnum sem voru á „varalista.“

Í viðtali við Fótbolti.net eftir 2-2 jafntefli Víkings og KR í Bestu deildinni greindi hinn 24 ára gamli Júlíus frá því að hann hefði verið meiddur þegar hópurinn var valinn og hafi því ekki gefið kost á sér. 

Hann hefur nú náð sér af meiðslunum og er nú orðinn hluti af hópnum þar sem Guðlaugur Victor hefur þurft að draga sig úr hópnum vegna meiðsla.

Júlíus á að baki einn A-landsleik en hann spilaði nokkrar mínútur í 1-0 sigri á San Marínó í vináttuleik fyrr á þessu ári. Miðjumaðurinn knái lék á sínum tíma 33 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af 15 fyrir U-21 árs landsliðið.


Tengdar fréttir

Landsliðið úr Bestu deildinni fer líka til Kóreu

Nú er orðið ljóst hvaða tveir leikir bíða íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í næsta mánuði en KSÍ tilkynnti í dag að seinni leikurinn yrði við Suður-Kóreu í Hwaseong, í nágrenni Seúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×