Fótbolti

Landsliðið úr Bestu deildinni fer líka til Kóreu

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Snær Þorvaldsson og Dagur Dan Þórhallsson eru báðir í íslenska landsliðshópnum sem mætir Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu.
Ísak Snær Þorvaldsson og Dagur Dan Þórhallsson eru báðir í íslenska landsliðshópnum sem mætir Sádi-Arabíu og Suður-Kóreu. VÍSIR/VILHELM

Nú er orðið ljóst hvaða tveir leikir bíða íslenska karlalandsliðsins í fótbolta í næsta mánuði en KSÍ tilkynnti í dag að seinni leikurinn yrði við Suður-Kóreu í Hwaseong, í nágrenni Seúl.

Áður var ljóst að Ísland myndi mæta Sádi-Arabíu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 6. nóvember, og nú hefur leikurinn við Suður-Kóreu bæst við og verður hann 11. nóvember.

Leikirnir eru ekki innan opinbers landsleikjaglugga FIFA og því er íslenski landsliðshópurinn að miklu leyti skipaður leikmönnum úr Bestu deildinni á Íslandi, sem lýkur næsta laugardag. 

Í hópnum eru þó einnig reynslumiklir landsliðsmenn á borð við Aron Einar Gunnarsson og Guðlaug Victor Pálsson, auk fleiri leikmanna sem spila með erlendum félagsliðum.

Karlalandsliðið tekur einnig þátt í Baltic Cup með Eystrasaltslöndunum Eistlandi, Lettlandi og Litháen, dagana 16.-19. nóvember. Þá verður komið HM-hlé í öllum deildum og getur Ísland því teflt fram sínu sterkasta liði.

Í dag var svo einnig tilkynnt að U21-landslið Íslands myndi mæta Skotlandi 17. nóvember í Skotlandi. Leikurinn er liður í undirbúningi fyrir nýja undankeppni, fyrir EM 2025, og er fyrsti leikurinn eftir að Ísland tapaði fyrir Tékklandi í umspilinu um sæti á EM 2023.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×