Fótbolti

Svekkjandi jafntefli Íslendingaliðsins

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ari Freyr Skúlason spilaði allan leikinn fyrir Norrköping.
Ari Freyr Skúlason spilaði allan leikinn fyrir Norrköping.

Íslendingalið Norrköping gerði svekkjandi 1-1 jafntefli við Värnamo í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Tveir af fjórum íslenskum leikmönnum liðsins komu við sögu.

Ari Freyr Skúlason og Arnór Ingvi Traustason byrjuðu báðir á miðju Norrköping er liðið heimsótti Värnamo í 28. umferð deildarinnar í kvöld. Arnór Sigurðsson var fjarri góðu gamni og utan hóps og þá sat Andri Lucas Guðjohnsen allan leikinn á bekknum.

Laorent Shabani kom Norrköping yfir eftir tæplega stundarfjórðungsleik með laglegu skoti og Norrköping leiddi allt þar til örfáar mínútur voru eftir. Á 89. mínútu jafnaði Marcus Antonsson muninn fyrir Värnamo eftir mikinn klaufagang hjá Norrköping. Mörkin úr leiknum má sjá í spilurunum hér að ofan og neðan.

Íslendingaliðið þurfti því að sætta sig við aðeins eitt stig.

Sigur hefði þýtt að Norrköping væri tölfræðilega öruggt frá umspilssæti um fall úr deildinni en liðið er með 33 stig í 11. sæti af 16 liðum. Sundsvall og Helsingborg eru fallin í neðstu tveimur sætunum en Varbergs BoIS með 28 stig, fimm minna en Norrköping og því getur liðið enn tæknilega séð lent í umspilssætinu ef allt fer á versta veg í umferðunum tveimur sem eftir eru.

Adam Ingi Benediktsson var þá varamarkvörður Gautaborgar sem vann 1-0 sigur á AIK með marki Emans Markovic á 81. mínútu.

Gautaborg er í 8. sæti með 42 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×