Fótbolti

Nýja mamman kom Portland Thorns í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Crystal Dunn fagnar sigri Portland Thorns og sæti í úrslitaleiknum.
Crystal Dunn fagnar sigri Portland Thorns og sæti í úrslitaleiknum. Getty/Amanda Loman

Portland Thorns spilar til úrslita um bandaríska meistaratitilinn í kvennafótboltanum eftir sigur á San Diego Wave í undanúrslitaleiknum.

Portland liðið vann leikinn 2-1 þökk sé sigurmarki frá Crystal Dunn.

Crystal Dunn kom inn sem varamaður í seinni hálfleiknum og skoraði markið sem réð úrslitum í uppbótartíma. Casey Stoney kom San Diego í 1-0 en Raquel Rodriguez jafnaði fyrir Portland.

Dunn eignaðist soninn Marcel í maí og sneri aftur í NWSL deildina í september.

„Ég endurupplifi þetta aftur og aftur í huganum. Þetta var ótrúlegt,“ sagði Crystal Dunn.

„Eftir að ég sá boltann detta fyrir mig þá hugsaði ég: Crystal þetta er stundin þín, vonandi hittir þú hann eins fast og þú getur og alls ekki láta neinn komast fyrir skotið,“ sagði Dunn kát.

„Það er erfitt að trúa þessu því að ég fæddi barn fyrir bara fimm mánuðum,“ sagði Dunn. Hún er þrítug og hefur spilað 125 leiki fyrir bandaríska A-landsliðið.

„Ég var að hugsa um að taka mér frí þetta tímabil og byrja fersk upp á nýtt árið 2023. Ég vildi samt enda þetta ár eins vel og ég gat og ég hef lagt mikið á mig til að komast aftur inn á völlinn,“ sagði Dunn.

Markið hennar kom 156 dögum eftir fæðingu sonarins.

Rhian Wilkinson, þjálfari Portland, grínaðist með þá staðreynd eftir leikinn. „Ég er með mat í frystinum mínum sem er eldri en það,“ sagði Rhian Wilkinson en þetta var í fyrsta sinn sem tveir kvenþjálfarar mættust í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×