Fótbolti

„Boltinn stoppar en ekki tilfinningarnar“

Sindri Sverrisson skrifar
Franck Ribery vann tvöfalt með Bayern München árið 2019 áður en hann kvaddi félagið eftir afar sigursæla tíma.
Franck Ribery vann tvöfalt með Bayern München árið 2019 áður en hann kvaddi félagið eftir afar sigursæla tíma. Getty/A. Hassenstein

Franck Ribery hefur lagt knattspyrnuskóna á hilluna eftir afar farsælan feril. Þessi 39 ára gamli Frakki hefur slitið samningi sínum við ítalska félagið Salernitana eftir vandræði vegna hnémeiðsla.

„Boltinn stoppar en ekki tilfinningarnar,“ skrifaði Ribery á Twitter og þakkaði fyrir samfylgdina í gegnum viðburðaríkan feril.

Ribery skoraði 124 mörk og átti 182 stoðsendingar í 425 leikjum fyrir Bayern München á árunum 2007-2019. Hann kvaddi Bayern eftir sjöunda Þýskalandsmeistaratitilinn í röð.

Alls vann Ribery níu Þýskalandsmeistaratitla með Bayern sem og Evrópumeistaratitilinn árið 2013.

Ribery var á sínum ferli þrisvar sinnum valinn leikmaður ársins í Frakklandi og hann skoraði 16 mörk og gaf 25 stoðsendingar í 81 landsleik fyrir Frakkland, áður en hann hætti í landsliðinu eftir að hafa misst af HM 2014 vegna bakmeiðsla.

Eftir tíma sinn hjá Bayern fór Ribery til Fiorentina á Ítalíu og skipti svo yfir til Salernitana í fyrra. Hann lék einnig með Boulogne, Ales, Brest, Metz og Marseille í Frakklandi, sem og með Galatasaray í Tyrklandi árið 2005.

Franck Ribery með verðlaunasafnið sitt hjá Bayern München.Getty/Alexander Hassenstein



Fleiri fréttir

Sjá meira


×