Fótbolti

Ron­aldo var ó­notaður vara­maður og yfir­gaf Old Traf­ford fyrir leiks­lok

Atli Arason skrifar
Ronaldo á varamannabekk Manchester United í kvöld.
Ronaldo á varamannabekk Manchester United í kvöld. Getty Images

Cristiano Ronaldo, leikmaður Manchester United, virtist vera ósáttur með stöðu mála og yfirgaf leikvöllinn áður en lokaflautið gall í sigri United gegn Tottenham í stórleik umferðarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Ronaldo sat allan leikinn á varamannabekk United og rauk inn í búningsklefa liðsins án þess að fagna með liðsfélögum sínum eftir sigurinn á Tottenham.

Leikmannagangurinn á Old Trafford er ólíkt öðrum völlum á Englandi í horni leikvangsins og því urðu allir viðstaddir varir við það þegar Ronaldo gékk með fram hliðarlínunni og inn í klefa í kringum 90. mínútu leiksins. 

Með athæfi sínu er Ronaldo að ná flestum fyrirsögnum breska fjölmiðla eftir leikinn og dregur það athyglina frá sigri Manchester United gegn öflugu liði Tottenham en Manchester United er einungis einu stigi frá Meistaradeildarsæti eftir sigurinn, þrátt fyrir slæma byrjun liðsins á tímabilinu.

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, vildi eðlilega ekki ræða Ronaldo þegar blaðamenn spurðu hann út atvikið eftir leik.

„Ég vil hafa fókusinn á liðið en þetta var mögnuð frammistaða hjá öllum gegn góðu liði Tottenham. Til að svara spurningunni um Ronaldo þá mun ég eiga við það mál á morgun, ekki núna,“ svaraði Ten Hag aðspurður út í Ronaldo.

Er þetta ekki í fyrsta skipti sem Ronaldo yfirgefur leikvanginn áður en leikur liðsins er flautaður af en Ronaldo gerði slíkt hið sama á undirbúningstímabili liðsins og vakti það mikla athygli á sínum tíma. 

„Ég skil gremju hans að fá ekki að taka þátt í leiknum en ef þú horfir á stóru myndina þá var liðið hans að sýna mjög góða frammistöðu í kvöld,“ sagði markahrókurinn Alan Shearer, sparkspekingur hjá Amazon Prime, um athæfi Ronaldo. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×