Erlent

Vilja grípa til laga­setningar til að koma í veg fyrir ráðningar til Kína

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Yfirvöld á Bretlandseyjum vilja koma í veg fyrir að fyrrverandi og núverandi hermenn ráði sig til Kína.
Yfirvöld á Bretlandseyjum vilja koma í veg fyrir að fyrrverandi og núverandi hermenn ráði sig til Kína. epa/Henning Bagger

Breskir ráðherrar vilja breyta lögum til að koma í veg fyrir að fyrrverandi flugmenn breska flughersins séu Kínverjum innan handar við þjálfun herflugmanna. 

Fregnir hafa borist af því að að minnsta kosti 30 Bretar hafi ráðið sig til kínverska hersins, sem ku hafa boðið einstaklingunum afar álitlega ráðningarsamninga.

Yfirvöld á Bretlandseyjum eru sögð uggandi vegna málsins þar sem þau segja ráðningarnar ógn við hagsmuni Bretlands og Vesturlanda. James Heappey, ráðherra heraflans, segir vilja til að breyta lögunum á þann veg að mönnum yrði gefin ein viðvörun áður en þeir yrðu sóttir til saka.

Hann segir yfirvöld hafa sett sig í samband við umrædda einstaklinga og látið það skýrt í ljós að hernaðaryfivöld gerðu þá kröfu að þeir störfuðu ekki með Kínverjum.

Heappey segir Kínverja ógna hagsmunum Breta víðsvegar í heiminum. 

Á sumum sviðum ættu þjóðirnar í samstarfi en það væri ekkert launungarmál að Kínverjar hefðu gert tilraunir til að komast yfir leyndarmál Breta og að ráðningar breskra herflugmanna væru liður í því að greina getu flughersins.

Breska varnarmálaráðuneytið hefur gefið út yfirlýsingu um að það freisti þess nú að koma í veg fyrir að fyrrverandi og núverandi flugmenn ráði sig til Kína. Allir umræddir einstaklingar séu þegar bundnir af lögum um þagnarskyldu en ný lög um þjóðaröryggi muni taka enn harðar á öryggisógnum á borð við þessa.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×