Innlent

Saka stjórnvöld um að láta vaxtabótakerfið „gufa upp“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hagsmunasamtök heimilanna eru ómyrk í máli í umsögn sinni.
Hagsmunasamtök heimilanna eru ómyrk í máli í umsögn sinni. Vísir/Vilhelm

Hagsmunasamtök heimilanna hafa skilað inn umsögn um bandorm með fjárlagafrumvarpinu 2023, þar sem þau gagnrýna þá fyrirætlan stjórnvalda að ætla að láta vaxtabótakerfið halda áfram að „gufa upp“ í verðbólgunni, eins og það er orðað, „hraðar en nokkru sinni fyrr“.

Þetta sé ekki aðeins þróun sem ríkisstjórnin sé meðvituð um heldur sé það beinlínis ætlun hennar að leiðrétta ekki skerðingamörk vaxtabóta með hliðsjón af stórfelldum hækkunum húsnæðisverðs eða verðlags almennt.

Samtökin vísa í skrifleg svör fjármála- og efnahagsráðherra, þar sem segi að um það bil 2.800 manns sem hafi hingað til átt rétt á vaxtabótum muni að óbreyttu missa rétt sinn alfarið um áramótin og allt að 90 prósent þeirra sem áður fengu vaxtabætur verða fyrir skerðingum vegna hækkunar fasteignamats. 

Af svörum ráðherra sé ekki annað að sjá en að hann hyggist ekki bregðast við þessari þróun.

Þá gagnrýna samtökin einnig að heimild til að nýta skattfrjálsa ráðstöfun séreignasparnaðar til að greiða niður húsnæðislán og draga þannig úr vaxtaútgjöldum muni að óbreyttu falla úr gildi um mitt næsta ár nema hjá fyrstu kaupendum.

„Nú þegar verðbólga og vextir eru í hæstu hæðum og ríkisstjórnin gerir ekkert til að koma böndum á stóraukna greiðslubyrði heimilanna, er óforsvaranlegt að fyrrnefnd úrræði verði vísvitandi látin detta úr sambandi án þess að neitt annað taki við. Samtökin mælast eindregið til að úr því verði bætt,“ segir í umsögninni.

Umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.